137. löggjafarþing — 33. fundur,  2. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[12:48]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það mætti kannski reyna að endursegja ræðu hæstv. utanríkisráðherra með því að segja: Það var mín ömurlega ríkisstjórn sem ber ábyrgð á þessu klúðri og ég fékk ekkert að vita. Það voru hinir ráðherrarnir, Sjálfstæðisflokksráðherrarnir en ekki ég sem klúðruðu þessu öllu saman þrátt fyrir að mitt ráðuneyti hafi farið með ráðuneyti Fjármálaeftirlitsins allan tímann og Sjálfstæðisflokkurinn hafi ekki borið ábyrgð á rekstri þeirrar stofnunar frá árinu 1991, aldrei einn einasta mánuð. (Gripið fram í: Utanríkisráðherra auðvitað.) Ef flutt hefur verið ömurleg ræða í tengslum við þetta mál þá var það sú ræða sem síðast var lokið við að flytja. Hann vill einfaldlega ekki hlusta á þann málflutning sem ég hef fram að færa um að ég studdi það að leitað yrði pólitískrar lausnar að gefnum ákveðnum forsendum. En ég skora á hæstv. utanríkisráðherra að koma upp og skýra frá því, hvers vegna íslenska ríkið á að gangast í ábyrgð fyrir lántökum innstæðutryggingarsjóðsins. (Forseti hringir.) Eru það lagaleg rök? Eru það pólitísk rök? (Gripið fram í.) Eða hvaða rök eru það?