137. löggjafarþing — 33. fundur,  2. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[12:49]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Sjálfstæðismenn í salnum eru slíkar skræfur að þeir þola ekki að rifjað sé upp hver er þeirra aðkoma að þessu máli. Rökin sem hv. þingmaður bað um flutti hann sjálfur í ræðu sinni 5. desember. Varðandi það mál sem hér er um að ræða þá var það fjármálaráðherra Sjálfstæðisflokksins sem lagði drög að samningi sem var miklu verri en sá sem gerður var og sem elti samningamennina nánast fram á síðasta dag. (REÁ: En þú?) Það var sömuleiðis sami fjármálaráðherra sem gaf út fréttatilkynningu um að sams konar samningur væri í burðarliðnum varðandi Breta. Það var komið í veg fyrir það. Það var jafnframt sami fjármálaráðherra sem féllst á það með samþykki þáverandi formanns Sjálfstæðisflokksins, að fallast á bindandi gerðardóm án þess að bera það undir nokkurn mann í ríkisstjórninni. Þannig starfaði Sjálfstæðisflokkurinn á þessum tíma og læt ég þá liggja á milli hluta ábyrgð hans 18 árin þar á undan.