137. löggjafarþing — 33. fundur,  2. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[12:50]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þessi málflutningur er eins og einn samfelldur brandari, þessi ræða hæstv. utanríkisráðherra. Það var Árni Mathiesen sem gerði þetta, það var Geir Haarde sem gerði þetta. Ég sat í ríkisstjórn, ég vissi ekki neitt, þetta hljómar eins og þú hafir verið að æfa lögreglukórinn, eins og sagt var í laginu. (Utanrrh.: Eins og með gerðardóminn, …) Ég ber ekki neina ábyrgð þrátt fyrir að hafa setið í ríkisstjórninni, en hvar eru öll rökin? (Gripið fram í.) Hæstv. utanríkisráðherra getur ekki vísað í mína ræðu þó að hann reyni það til að færa fram rök fyrir því að við eigum að gangast í þessa ríkisábyrgð vegna þess að það dugar honum ekki. Hann treystir sér ekki til að koma hingað upp með ein einustu rök fyrir því að við eigum að fallast á þessa ríkisábyrgð, önnur en þau að einstakir ráðherrar Sjálfstæðisflokksins hafi verið búnir að skuldbinda íslensku þjóðina. Ég segi: það er rangt. Ég segi: það er ástæðan fyrir því að við erum hér, ég segi það er ástæðan fyrir því að hæstv. fjármálaráðherra var að mæla fyrir frumvarpi og biðja þingið um að staðfesta ríkisábyrgðina. (Forseti hringir.) Það hefur ekkert verið gert sem ekki er afturkræft og við eigum ekki að láta kúga okkur til samninga sem við viljum ekki standa við (Forseti hringir.) og getum ekki staðið við. (Gripið fram í: … ekki standa við okkar eigin orð.)