137. löggjafarþing — 33. fundur,  2. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[12:53]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vildi trúa því fyrir fram að allir þingflokkar á Alþingi væru sammála um eitt: Að við mundum aldrei samþykkja þessa ríkisábyrgð, taka á okkar þær miklu byrðar sem hér væri um að ræða nema að baki lægi skýr skylda, skýr lagaleg rök eða eftir atvikum einhverjar pólitískar ástæður sem við gætum ekki hlaupist frá. Niðurstaða samningsins sem nú er verið að biðja um ríkisábyrgð fyrir er þess eðlis að við eigum frekar að láta reyna á rétt okkar en að gangast undir það að taka á okkur allar byrðarnar og ríkið getur ekki annað en haldið uppi þeim sjálfsagða rétti sínum að láta reyna á lagalega stöðu sína þegar viðsemjendur okkar sýna okkur jafnmikla óbilgirni og gert hefur verið í þessu máli.