137. löggjafarþing — 33. fundur,  2. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[12:55]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem ég vil einfaldlega benda á í tilefni af þessu er það að við erum öll í sama bátnum. Við höfum öll sameiginlega hagsmuni af því að fá góða niðurstöðu í þetta mál. Ég hef aldrei haldið því fram að núverandi ríkisstjórn eða hæstv. fjármálaráðherra væri í auðveldri stöðu. Við erum öll með sömu og sameiginlega hagsmuni í þessu. Það sem okkar málflutningur gengur út á og minn sérstaklega er þetta: Göngumst ekki undir afarkosti þessara tveggja ríkja. Látum ekki kúga okkur til niðurstöðu sem við erum ósátt við og þaðan af síður, látum ekki segja okkur að við eigum einir að axla allar byrðarnar af því að regluverkið brást. Um þetta getum við öll mjög vel staðið saman. Ef hæstv. fjármálaráðherra hefði ekki skipt um skoðun þá gætu einfaldlega allir flokkar staðið saman um þetta og sameiginlega borið ábyrgðina af afleiðingum þess ef þessar þjóðir kjósa að beita okkur viðskiptalegum þvingunum eða pólitískri einangrun.