137. löggjafarþing — 33. fundur,  2. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[13:35]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég fagna því að hæstv. fjármálaráðherra er kominn í salinn en við bíðum eftir hæstv. forsætisráðherra. Mér finnst að frú forseti, sem er m.a. kjörin af okkur þingmönnum stjórnarandstöðunnar, eigi að sýna þingmönnum virðingu þegar við óskum eftir því að hæstv. ráðherrar séu viðstaddir þessa umræðu, og þá kannski sérlega forustumönnum stjórnarandstöðunnar, þar á meðal hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, formanni Framsóknarflokksins, sem hefur haft sig mjög í frammi í þessu máli. Það að hæstv. ráðherrar séu ekki viðstaddir til að svara hv. þingmanni ber vott um algjört virðingarleysi gagnvart þingmanninum og Alþingi Íslendinga. Ég tel að frú forseti eigi í þessu máli að gæta að virðingu þingsins og ég trúi ekki öðru en að frú forseti hlýði á þá beiðni okkar að fresta þessum fundi um einar 10 mínútur þannig að formaður Framsóknarflokksins geti lagt hér fram fyrirspurnir, m.a. til hæstv. forsætisráðherra, þannig að við hlúum og hugum að virðingu Alþingis. Það veitir svo sannarlega ekki af á þessum tímum.