137. löggjafarþing — 33. fundur,  2. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[13:52]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er aðeins eitt atriði sem ég vil leiðrétta. Hv. þingmaður sagði að það hefði aldrei staðið til, eða það hefði staðið til öllu heldur, að alþingismenn fengju ekki að sjá þennan samning. Þessu er akkúrat og algerlega öfugt farið. (SDG: Þú fullyrtir það.) Því var öfugt farið. Strax eftir að niðurstaðan lá fyrir lýsti ég því í fyrsta lagi opinberlega yfir, bæði á blaðamannafundum og hér í ræðustóli Alþingis, að við værum í samskiptum við gagnaðila okkar um að fá að gera samninginn opinberan og í öllu falli tryggja aðgengi alþingismanna að honum. Það lá fyrir löngu áður en drög að ófrágengnum samningi bárust til fjölmiðla með einhverjum hætti og til hv. þm. Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. Þetta er til skjalfest ef menn trúa ekki yfirlýsingum um það. Að sjálfsögðu var aldrei ætlunin annað en alþingismenn hefðu öll þau gögn sem tiltæk væru til að kynna sér í þessu máli. Og sá viðamiklu skjalapakki sem hér fylgir með, ég fullyrði að hann á sér ekki hliðstæður því þó að málið sé vissulega stórt og einstætt á margan hátt í sögu okkar þá held ég þó að oft áður hafi niðurstöður flókinna samninga komið á borð alþingismanna með fátæklegri fylgigögnum en nú er þar sem hefur verið létt trúnaði af skjölum sem ekki hefur verið venjan að sýna fyrr en að áratugum liðnum þegar gögn úr ráðuneytum eru orðin aðgengileg í Þjóðskjalasafni Íslands. Ég held að hv. þingmenn hljóti að viðurkenna það þegar þeir skoða fylgigögn málsins að það hafi verið allt reynt sem hægt er til að auðvelda mönnum að kynna sér það ofan í kjölinn og taka upplýsta ákvörðun.