137. löggjafarþing — 33. fundur,  2. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[13:54]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Það er líklega við hæfi að hæstv. fjármálaráðherra fari með rangt mál nú því þannig hófst umræða hans við mig um þetta mál á Alþingi þegar hæstv. ráðherra fullyrti að því færi fjarri að von væri á samningum í Icesave-málinu. Það væru ekki hafnar formlegar viðræður. Skömmu síðar, innan við tveimur sólarhringum síðar var samningurinn kynntur eða að til stæði að undirrita hann. Síðan hefur hæstv. ráðherra reyndar haldið því fram sem rökum nú nýlega að það væri ekki um annað að ræða en fallast á þennan samning vegna þess að það hafi farið svo mikil vinna í samninginn, svo margir samningafundir, samningaviðræður búnar að standa svo lengi. Þessir tæpu tveir sólarhringar þykir mér ekki sérstaklega langur tími, hafi ráðherrann farið með rétt mál.

En það er eins og ég segi hreinlega rangt að til hafi staðið að kynna þinginu þennan samning. Það kom fram bæði í viðskiptanefnd og efnahags- og skattanefnd að þingið ætti ekki að fá að sjá samninginn. Það kom jafnframt fram að hugsanlega gæti Ríkisendurskoðun séð um að túlka samninginn fyrir þingmenn. Hæstv. fjármálaráðherra upplýsti það meira að segja í hv. utanríkismálanefnd að það ætti ekki einu sinni að opinbera vextina á samningnum. Það var ekki fyrr en samningurinn var kominn í fjölmiðla og ríkisstjórnin átti engra annarra kosta völ en hún ákvað að birta hann. Svoleiðis hefur þetta mál allt saman verið. Það hefur ekki eitt einasta atriði staðist og eigum við að trúa ríkisstjórninni nú þegar hún heldur því fram að þetta verði allt í lagi, þetta sé ekki svo mikið vandamál, þjóðin muni geta staðið undir þessu þrátt fyrir að málsmetandi menn um allt, bæði hér á landi og erlendis hafi sýnt fram á hið gagnstæða? Hvenær ætlar þessi ríkisstjórn að hætta að blekkja þingheim og þjóðina?