137. löggjafarþing — 33. fundur,  2. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[14:15]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Það sem hæstv. ráðherra virðist ekki skilja er m.a. það að sú mikla neysla sem hér var á undanförnum árum, Range Roverarnir og allt þetta sem ráðherrann nefndi, var ekki fjármögnuð með því að taka fé af einhverjum útflutningstekjum sem við áttum. Þetta var fjármagnað með lánum. Við vorum að skuldsetja okkur til viðbótar. Nú sitjum við uppi með þessi lán að miklu leyti svo að þetta er ekki kostur í stöðunni. Þetta er galli.

Þetta eltir okkur núna og hefur orðið til þess að það er ekki afgangur. Hvernig stendur á því að hæstv. ráðherra og hæstv. ríkisstjórn hafa ekki sýnt fram á að það sé til staðar eða verði þessi afgangur? Megnið af útflutningstekjunum, eins og ég nefndi áðan, fer í afborganir og vexti af lánum, stór hluti fer í nauðsynlegar innflutningsvörur, vörur sem við þurfum til að geta haldið áfram að flytja út. Og þá er mjög lítið eftir, líklega ekki neitt.