137. löggjafarþing — 33. fundur,  2. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[14:46]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Þannig er að eitt skal yfir alla ganga og ef gerð er ósk um að hér sé rætt með þeim hætti að forustumenn flokka séu viðstaddir í salnum þegar talsmenn flokka tala þá er ágætt að menn sýni öðrum talsmönnum flokka sömu virðingu og það á jafnt við um hv. þm. Valgeir Skagfjörð og þann sem hér er að fara að tala núna.

Virðulegi forseti. Það mál sem við stöndum frammi fyrir nú er afleiðing margra vondra ákvarðana. Margt sem aflaga hefur farið leiðir til þeirrar stöðu sem við erum í núna. Um það er fjallað ágætlega í langri og ítarlegri greinargerð með því frumvarpi sem hér er til umræðu. Sú útrás sem ráðist var í með nokkuð vanhugsuðum hætti, eins og komið hefur fram í umræðunni, leiddi til þeirrar stöðu sem við stöndum nú í. Það er líka ljóst að af hálfu Fjármálaeftirlitsins var unnið að því á árinu 2008 að reyna að stemma þessa á að ósi, koma þessari starfsemi fyrir í dótturfélögum til að draga úr áhættu íslensks almennings vegna þessara skuldbindinga, vegna þess að það var á almanna vitorði að Tryggingarsjóður innstæðueigenda starfaði ekki í lagalegu tómarúmi heldur væri hluti af hinu opinbera kerfi og ætti að tryggja innstæður. Þess vegna var lögð áhersla á að koma þessum skuldbindingum fyrir í dótturfélögum. Og auðvitað verður aldrei undan því vikist að leggja höfuðábyrgð af þessu máli á hendur þeim forsvarsmönnum Landsbankans sem kusu að leggja í þessa sjóferð vitandi það — ágæt líking hæstv. viðskiptaráðherra áðan af hripleku skipi — vitandi það að efnahagur bankanna var í mjög löku standi, vitandi að af hálfu íslenskra stjórnvalda, af hálfu Fjármálaeftirlitsins var lögð gríðarleg áhersla á að þessum eignum yrði komið fyrir í dótturfélögum og það var verið að vinna að því að koma þeim almennt í dótturfélög á þessum sama tíma, á fyrri hluta ársins 2008, að þá skulu menn samt sem áður ákveða að þenja frekar út skuldbindingarnar með því að stofna til nýrra skuldbindinga í Hollandi. Það er auðvitað með ólíkindum. Það hlýtur að þurfa að ítreka enn og aftur að ábyrgð forustumanna og forsvarsmanna Landsbankans er gríðarleg í þessu máli.

Í grunninn má kannski líkja þessu máli sem við stöndum frammi fyrir núna við að hér hafi verið í förum milli Íslands og Bretlands ferja sem flutti farþega og hún hafi getað tekið þúsund farþega. Um borð hafi hins vegar þegar kom að erfiðleikum einungis verið 200 björgunarbátar. Fyrir liggur haffærisskírteini. Um það er nokkuð deilt hvort björgunarbátarnir voru um borð þegar haffærisskírteinið var gefið út eða ekki en í öllu falli ef þeir voru um borð í upphafi þá hafi útgerðin kastað þeim á land áður en lagt var til sjós. Ábyrgðin er auðvitað fyrst og fremst þess skipherra sem ákveður að leggja á hafið við þessar aðstæður. En það er þá líka alveg ljóst að það er ekki í boði fyrir íslensk stjórnvöld að senda Landhelgisgæsluna á vettvang og ætla bara að bjarga Íslendingum úr þessum skipsskaða. Það hlýtur að vera þannig að eitt þurfi yfir alla að ganga og það er sá vandi sem við stöndum frammi fyrir að við getum ekki skotið okkur undan því að axla þá ábyrgð sem af því regluverki leiðir sem við höfum undirgengist, (Gripið fram í.) að tryggja skuli innstæður óháð þjóðerni þeirra sem eiga innstæður í útibúum (Gripið fram í.) eins og sama bankans.

Virðulegi forseti. Í þessu máli hafa verið settar fram margar vangaveltur um leiðir til að komast hjá því að borga. Fyrst áttum við ekki að borga bara af því að við áttum ekki að borga. Svo var því haldið fram hér að við ættum ekki að borga vegna þess að fyrir því væru engin rök, engin lögfræðileg rök. Lögfræðilegu rökin leiða auðvitað af skuldbindingu okkar að þjóðarétti um að innleiða innstæðutryggingarnar. (Gripið fram í: Nei.) Jú og því til viðbótar, færi svo að menn gætu fundið þeirri útúrsnúningalögfræði stað sem sett hefur verið fram af nokkrum íslenskum lögfræðingum til að koma okkur undan þeim skuldbindingum þá er afar hæpið annað en að ríkið yrði í öllu falli dæmt skaðabótaskylt (Gripið fram í.) að þjóðarétti fyrir að hafa ekki innleitt tilskipunina með fullnægjandi réttum hætti. Það er auðvitað þannig að óháð öllum lagaþrætum um þetta mál þá eru þær ekki einhlítar á einn eða neinn veg eins og gerst kemur í ljós í Morgunblaðinu í dag þar sem virtur erlendur Evrópuréttarlögfræðingur tjáir sig í þveröfuga átt. Það er alls ekki þannig að það séu nein slík einhlít lagarök í málinu að það sé yfir höfuð verjandi að leggja það fyrir dóm eins og hv. þm. Bjarni Benediktsson rakti svo ágætlega í ræðu sinni hér í desember í fyrra.

Svo er hér spurt: Af hverju er verið að semja? Af hverju er verið að samþykkja ríkisábyrgð í þessu máli? Hvers vegna? Svarið leiðir auðvitað af því að óháð öllum lögfræðirökum sem menn geta reynt að finna eftir á þá hafa íslensk stjórnvöld árum og missirum saman talað þannig að enginn vafi leiki á því að íslensk stjórnvöld beri ábyrgð á þessu máli. Ég nefni til sögunnar ágæta umfjöllun að þessu leyti fyrrverandi formanns Framsóknarflokksins, Jóns Sigurðssonar, í Pressunni nú nýverið og væri satt að segja mannsbragur að því ef málflutningur Framsóknarflokksins í þingsölum í dag bæri meiri keim af þeirri yfirvegun og þeirri málefnalegu framsetningu sem þar er að finna. (Gripið fram í: Er það ekki ástæða þess að hann er ekki lengur formaður Framsóknarflokksins?) Er hér verið að gera lítið úr hv. fyrrverandi formanni Framsóknarflokksins, Jóni Sigurðssyni? (Gripið fram í.) Eru framsóknarþingmenn komnir í það … (Gripið fram í.) Eru framsóknarþingmenn … (Forseti hringir.) (Gripið fram í.)

(Forseti (ÁI): Ró í salinn.)

komnir í það í frammíköllum í sal að gera lítið úr hv. fyrrverandi formanni Framsóknarflokksins, Jóni Sigurðssyni? (SDG: Nei, það var líka ...) Ég held að það sé full ástæða til þess að framsóknarmenn staldri aðeins við þegar þetta er farið að verða málflutningur Framsóknarflokksins á hinu háa Alþingi.

Virðulegi forseti. Í þessari ágætu umfjöllun rekur hæstv. fyrrverandi viðskiptaráðherra þá ábyrgð sem íslensk stjórnvöld hafa borið í þessu máli undanfarin ár og auðvitað er það þannig að hægt er að rekja hver gögnin á fætur öðrum. Þar er hægt að rekja og auðvitað verður ekki samningsstaða Íslands til í einhverju tómarúmi sem hægt er síðan að endurskapa eftir á með lögfræðilegum loftfimleikum. Samningsstaða Íslands skapast af þeim málflutningi sem Ísland hefur fram haldið og hann er alveg skýr.

Hæstv. þáverandi forsætisráðherra Geir H. Haarde sagði skýrt að staðið yrði við innstæðutryggingarsjóðinn og tryggt að hann gæti tekið lán til að standa við skuldbindingarnar. Þetta sagði hann 8. október. Og hinn mikli efnahagsgúrú Sjálfstæðisflokksins í dag, Tryggvi Þór Herbertsson, bætti nú um betur í umboði ríkisstjórnarinnar 4. október og sagði þá skýrt að innstæðueigendur í Bretlandi sem hefðu sett peninga í (Forseti hringir.) íslenska banka ...

((Forseti (ÁI): Forseti biður hæstv. ráðherra að leita leyfis forseta áður en lesnar eru tilvitnanir.)

Með leyfi forseta, ég var ekki kominn að tilvitnuninni. En með leyfi hæstv. forseta þá sagði hv. núverandi þingmaður Tryggvi Þór Herbertsson að innstæðueigendum í Bretlandi sem hefðu sett peninga sína í íslenska banka hefði verið tjáð að innstæður þeirra væru öruggar og að íslenska ríkisstjórnin mundi gangast undir þá skuldbindingu að tryggja þær ef bankarnir lentu í vanda. Það eru auðvitað þessar yfirlýsingar sem skapa samningsrúmið okkar og það eru þær sem skapa auðvitað forsendur (Gripið fram í.) þess hvernig hægt er að ganga til samninga í kjölfarið. (Gripið fram í.) Svo kemur þessi ágæti samningur. Þegar hv. þm. Bjarni Benediktsson spyr hér hvers vegna verið sé að ganga til samninga, hvers vegna verið sé að fallast á ríkisábyrgð þá er (Gripið fram í.) óhjákvæmilegt að horfa á minnisblaðið, Memorandum of Understanding, gildur samningur að þjóðarétti, hv. þingmaður, (Gripið fram í.) gildur samningur að þjóðarétti, undirritaður af þar til bærum aðila, hv. þáverandi ráðuneytisstjóra í fjármálaráðuneytinu, Baldri Guðlaugssyni, innsiglisverði Sjálfstæðisflokksins með sérstöku umboði hæstv. þáverandi fjármálaráðherra, undirritaður samningur um að það verði full ríkisábyrgð bæði á vöxtum og afborgunum á því láni sem innstæðutryggingarsjóðnum verði veitt. Auðvitað er þetta ekkert annað en samningur sem bindur ríkið að þjóðarétti. (Gripið fram í: Nei.) Málið er að þó svo að menn geti reynt að komast undan því vegna þess að ekki hafi verið gætt réttra formreglna þá er hér undirritaður samningur af fulltrúa íslensku ríkisstjórnarinnar. (Gripið fram í.) Það er við þessar aðstæður auðvitað sem búið er að skapa þann samningsramma að ríkið muni taka ábyrgð á þessu máli. Það er grunnurinn sem unnið er út frá. Svo geta menn haldið áfram að reyna að finna ný og ný rök til að komast út úr þessum málum eins og menn gera þegar þeim líður illa með stöðu sem þeir eru í og það er ekkert annað en mannlegt. Það er ekkert annað en mannlegt að reyna að komast undan og menn mega láta sér detta allt í hug og það er sjálfsagt að hugleiða allar þær lausnir. Við höfum heyrt stungið upp á mörgu undanfarna daga. Það hefur verið stungið upp á því að semja aftur. En þá spyr maður: Af hverju ættu viðsemjendur okkar að gefa okkur þá betri niðurstöðu úr þeim samningum heldur en þeim samningum sem við stöndum í núna? Hvaða ástæða er til að ætla að niðurstaðan verði með einhverjum hætti betri heldur en þeirra samninga sem þegar liggja fyrir? Þegar fyrir liggur hver grunnur málsins er, hverjar yfirlýsingar stjórnvalda voru á þessum tíma, hvernig stjórnvöld hafa hagað málflutningi sínum á mánuðunum að þeim tíma þegar hrunið verður þá fær maður ekki séð hvers vegna viðsemjendurnir ættu að gefa okkur betri samning. Það eru engin rök færð fyrir því af hverju hann ætti að verða betri. Hver eru rökin? Jú, vegna þess að það sé verið að leggja á okkur drápsklyfjar, er hér sagt. En það hafa verið færð fyrir því ítarleg rök að hér sé ekki verið að leggja drápsklyfjar á neinn, að hér sé ekki verið að leggja þannig byrðar á þjóðina að hún fái ekki risið undir þeim, þvert á móti. Það er meira að segja ágæt mynd í þessu ágæta skjali hér þar sem útlistað er hlutfall Icesave-skuldbindinganna af erlendri skuldabyrði þjóðarinnar á blaðsíðu 26 og hún sýnir það betur en flest annað að þótt þessar skuldir séu vissulega umtalsverðar og munu hafa erfiðleika í för með sér fyrir okkur þá eru þær ekki þannig að við getum ekki risið undir þeim þannig að sú grundvallarforsenda að við getum fengið einhvern samning sem sé í grundvallaratriðum öðruvísi en sá sem við höfum núna vegna þess að þessar byrðar séu svo miklar að það sé óraunsætt að leggja þær á okkur. Hún stenst einfaldlega ekki og það er enginn sem getur fært rök fyrir því að það standist. (SDG: Þetta er rangt hjá þér.)

Virðulegi forseti. Síðan geta menn komið með aðrar hugmyndir eins þær að við fáum að borga með íslenskum krónum og þá hlýtur maður að spyrja líka út frá líkingu hv. þm. Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar: Af hverju fáum við þá ekki bara að borga þetta með matadorpeningum? Það hljóta að vera takmörk fyrir því hversu ótrúlegar hugmyndir menn halda að hægt sé að leggja á borð fyrir viðsemjendur okkar og samt ná samningi í alþjóðlegum samningum. Auðvitað erum við komin á endastöð í þessu máli. Við höfum náð miklum árangri frá þeim samningi sem Sjálfstæðisflokkurinn var tilbúinn til að kvitta upp á (Gripið fram í: Og Samfylkingin.) í haust. Nei, Samfylkingin var ekki tilbúin til að kvitta upp á þann samning. (Gripið fram í.) Það var þess vegna sem hann er undirritaður af fulltrúa fjármálaráðherra en ekki utanríkisráðherra sem sat á sama fundi. (Gripið fram í.) Það er einfaldlega þannig að á þeim tíma (Gripið fram í.) eru menn alla vega tilbúnir til þess að kvitta upp á samning upp á 6,7% vexti og þriggja mánaða greiðslufrest. Nú liggur fyrir sjö ára greiðslufrestur og 5,5% vextir. (SDG: Það er of langt.) Það er mikill munur á því.

Virðulegi forseti. Það sem skiptir máli líka er að ljúka þessu, að leggja grunn að því að hér geti hafist efnahagsleg endurreisn. Á undanförnum vikum í þessari umræðu þar sem hefur gætt mikillar reiði yfir þessu ástandi og yfir þessum erfiðu örlögum, mjög skiljanlegrar reiði, hefur mér stundum verið hugsað til Egils Skallagrímssonar. Mér hefur verið hugsað til þess í Eglu þegar hann horfist í augu við að hafa misst syni sína. Hann horfist í augu við það og eftir missi sonar síns Böðvars sem drukknar fyllist hann djúpum harmi og eiginlega algerri lömun. Hann fyllist hrikalegri reiði og reiðin er ekki síst vegna þess að hann fær ekki hefnt sonar síns. Hann fær ekki hefnt hans og hann viðurkennir að ef hann fyndi einhvern sem hann gæti látið reiði sína bitna á þá væri það betra. En það var ekki hægt vegna þess að það var sjórinn sem tók soninn. Ef það væri einhver maður sem hefði drepið soninn hefði hann getað farið í þann mann og drepið hann og þannig svalað reiðinni. Hann fyllist þessari djúpu erfiðu reiði og hann grætur og hann lokar sig af í rekkju sinni. Dóttir hans kemur og sannfærir hann um það að leiðin sé ekki að æðrast yfir erfiðleikunum heldur að snúa harminum til ljóðs, skapa eitthvað nýtt, gera eitthvað gott. Ég held að í þessu Icesave-máli séum við líka komin að endastöð hvað þetta varðar. Við höfum ólmast. Við höfum reynt allt sem við mögulega getum. Við höfum sótt fram alls staðar. Við reyndum öll þessi lögfræðirök. Við komumst ekki lengra. Nú er kominn tími til að sættast við þá niðurstöðu. Hún er ekki fullkomin. Auðvitað angrar þetta okkur. En það sem mestu skiptir núna er að fara að snúa harmi okkar til ljóðs, að skapa eitthvað nýtt, skapa verðmæti, snúa okkur að því að byggja eitthvað jákvætt upp þannig að við getum lagt þann grunn sem gerir okkur kleift að standa undir þessum skuldbindingum til lengri tíma litið.