137. löggjafarþing — 33. fundur,  2. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[15:04]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Hæstv. félagsmálaráðherra heldur því fram að þetta minnisblað sem honum er svo tíðrætt um sé samningur. Þetta er minnisblað. Þetta er hugmynd um það hvernig mætti leysa málið og það er fjallað um það að það eigi að koma til móts við Íslendinga sérstaklega í því umboði sem Alþingi svo veitti ríkisstjórninni. Það var ekki gert og nú liggur hér fyrir samningur. Þetta er allt annar samningur en lagt var upp með, heldur en menn sættust á að veita ríkisstjórninni umboð til. Þar af leiðandi hefur þetta margumrædda minnisblað hér ekkert að segja eins og hæstv. fjármálaráðherra hefur svo oft gert svo ítarlega og svo vel grein fyrir í málflutningi sínum þar til hann lenti í því að verða ráðherra.