137. löggjafarþing — 33. fundur,  2. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[15:10]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þegar ég gagnrýni það hér úr ræðustól Alþingis, eins og ég hef stundum gert, að við ráðum litlu um örlög okkar þegar við erum aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu vegna þess að við fáum forfabríkeraða löggjöf til landsins og verðum að innleiða hana þá gagnrýnir hv. þingmaður mig gjarnan fyrir að þetta sé ekki rétt því að Alþingi hafi vissulega réttinn til að hafna eða synja löggjöfinni. Í þessu tilviki varðandi tryggingarsjóðinn var það ákvörðun Alþingis hvernig hann var búinn út. Ef það var ekki nægt fé í tryggingarsjóðnum fyrir því sem gerðist þá var það auðvitað á ábyrgð Alþingis, sem hafði fullar heimildir til þess að leggja ríkari greiðsluskyldu á bankana. Það er nú ekki flóknara en það að tilskipunin bannar ekkert að bankar borgi almennilega inn í þennan sjóð þannig að það sé nægt fé til að bregðast við útrásargleði þeirra. Það er ekki eins og það sé neitt í tilskipuninni sem banni að hemill sé settur við útrásargleðinni. Nei, nei, þvert á móti var bara ákveðið að efna til strandhöggs. Það var ákveðið að fjármagna upp í skuldbindingarnar.