137. löggjafarþing — 33. fundur,  2. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[15:12]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt að í þessu ágæta minnisblaði er endurskoðunarákvæði. Það endurskoðunarákvæði er nú heldur veikara satt að segja en það endurskoðunarákvæði sem flokksbræður og flokkssystur hv. þingmanns hafa gagnrýnt í þeim samningi sem hér liggur fyrir nú. Það stendur einfaldlega að þessum samningi megi breyta með samþykki beggja, með öðrum orðum að það megi bæta við samninginn. Það leiðir af sjálfu sér. Þetta er veikara endurskoðunarákvæði en það marggagnrýnda endurskoðunarákvæði sem er í þeim samningi sem hér hefur verið gerður (Gripið fram í.) nú nýverið. Það sem liggur fyrir er að auðvitað skrifa undir þetta fulltrúar íslensku samninganefndarinnar og það er bara einfaldlega þannig að við þær aðstæður eru fulltrúar Íslands við borðið búnir að skrifa undir fyrir landsins hönd og undan því verður ekkert vikist. Menn verða bara að átta sig á þessari grundvallarreglu þjóðaréttar. (Gripið fram í.)