137. löggjafarþing — 33. fundur,  2. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[15:38]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég stend upp til að þakka hæstv. ráðherra fyrir ágæta ræðu. Auðvitað get ég ekki tekið undir allt það sem þar kom fram. En ég sé mig knúinn til að bregðast við vegna þess að hann horfir mjög til stjórnarandstöðunnar. Skilaboðin til hæstv. ráðherra eru mjög skýr: Verði þessi samningur felldur, verði ekki fallist á að veita ríkisábyrgðina vegna þess samnings sem fyrir liggur þá munu menn að sjálfsögðu snúa bökum saman og taka á því máli eins og til þarf.

Verði afleiðingarnar þær sem mestu svartsýnismenn spá hér á þinginu, að Ísland verði Kúba norðursins, að við verðum beitt þvingunum og ósanngirni bæði af einstökum Evrópuríkjum og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum þá tökum við sameiginlega á því. En við munum alltaf halda þeirri kröfu okkar á lofti að fá skorið úr um réttarstöðu okkar áður (Forseti hringir.) en við erum látin fallast á ábyrgðir af þeirri stærðargráðu sem hér um ræðir.