137. löggjafarþing — 33. fundur,  2. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[15:45]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Hér hafa átt sér stað mjög athyglisverðar umræður og nú síðast í andsvörum. Ég vil sérstaklega leyfa mér að byrja á því að taka undir með hv. þm. Pétri H. Blöndal þar sem hann undirstrikar mikilvægi þess að við verðum að ná samstöðu í þessu máli. Hér er mál þetta rekið þannig að það er annaðhvort eða, þ.e. stjórn eða stjórnarandstaða. Það er eins og menn megi ekki hafa ákveðnar skoðanir á þessu máli öllu og það er eins og menn vilji ekki kannast við söguna. Það er svolítið nöturlegt að hlusta á þingmenn Samfylkingarinnar og sérstaklega ráðherra sem hafa líklega einir talað í dag. Þeir láta eins og þeir séu í leiknum frúin í Hamborg. Í staðinn fyrir að ekki megi segja nei eða já, hvítt eða svart, þá má ekki nefna Samfylkinguna á nafn, hvað þá síðustu ríkisstjórn og þátttöku hennar í síðustu ríkisstjórn, (Gripið fram í: Heyr!) hvað þá að hún hafi verið í forustu fyrir utanríkisráðuneytinu eða viðskiptaráðuneytinu. Það má ekki nefna hér. Það er bannorð í dag. Samfylkingin er í frúnni í Hamborg í dag og það er hálfnöturlegt að sjá ekki meiri ábyrgð af hennar hálfu í þessu stóra og mikla máli. Ég er ekki endilega sammála hæstv. fjármálaráðherra. Ég er það ekki. Það vita það flestir sem ég þekki að það er alltaf ákveðin aðdáun sem leynist af minni hálfu í hans garð. En pólitískt erum við ekki sammála. En hann er að fara í þetta verkefni og hann er ekki að fela það að hann er búinn að skipta um skoðun. Hann er ekkert að fela það. Hann þarf að leysa þetta verkefni og við vitum það öll.

Þegar við fórum í þessa vegferð alla í haust, stóðum frammi fyrir gríðarlega miklu og erfiðu verkefni þá var staðan allt önnur en hún er bæði í samfélaginu í dag en ekki síður í umheiminum öllum. Þá þurfti að taka margar ákvarðanir, ákvarðanir sem sagan mun hugsanlega leiða í ljós að sumar hverjar voru réttar og aðrar rangar. Þannig er það. Ríkisstjórnin þá — og það vita líka samfylkingarþingmenn og þeir sem tóku þátt í ríkisstjórninni — við stóðum frammi fyrir því þá að það væru hugsanlega svo miklar gjaldeyrishömlur og fleira að við gætum ekki keypt olíu á skipin, flugvélar yrðu hugsanlega fastar á erlendum flugvöllum, við ættum erfitt með að borga fyrir matvæli og svo framvegis. Embættismaður í utanríkisráðuneytinu sagði réttilega: „Grunnforsendan hjá ríkinu núna er að halda bankarekstrinum gangandi til þess að koma gjaldeyri til og frá landinu til þess að við getum greitt fyrir okkar nauðsynjar þannig að við getum haldið uppi eðlilegum samskiptum.“ Frammi fyrir þessu stóð ríkisstjórnin. Síðan eru menn, meira að segja reyndir menn eins og hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra í utanríkisþjónustunni — hann kemur hingað upp og leyfir sér að halda því fram að MoU eða Memorandum of Understanding sé bindandi samkomulag, að þetta minnisblað sé bindandi samkomulag þegar öllum mönnum var ljóst og allir vissu að þetta var ekki bindandi. Hollendingunum var strax gerð grein fyrir þessu af okkar hálfu, af hálfu okkar forsætisráðherra fyrrverandi. Hann talaði við sinn kollega. Það vissu það allir að þetta var ekki minnisblað sem við ætluðum að byggja okkar samninga á og við gætum einfaldlega ekki staðið við. Af hverju vilja menn ekki kannast við þessa sögu? Þeir væru menn að meiri ef þeir gerðu það. Það finnst mér til að mynda hæstv. fjármálaráðherra gera.

Hvað gerist síðan? Ég skal segja eitt dæmi sem undirstrikar það að þetta var ekki bindandi. Á ECOFIN-fundinum 4. nóvember, fundi fjármálaráðherra Evrópuríkjanna kom skýrt fram — Þjóðverjar voru að beita okkur ákveðnum þvingunum og þrýstingi — en það kom líka skýrt fram í máli fjármálaráðherrans hollenska, Bos, að samræður væru í gangi á milli Hollendinga og Íslendinga og þær gengju bara vel. Það var alveg ljóst af hans hálfu — og þess vegna héldu Hollendingar áfram að tala við okkur — að það var aldrei búið að skrifa undir neitt samkomulag. Það var aldrei búið að binda alla hnúta og alla enda og það er ekki hægt að segja að þetta sé það sem við eigum að miða við því þá um leið erum við að segja að við ætlum ekki að fara að ráðum — sem meðal annars kom fram hjá hv. utanríkismálanefnd á sínum tíma — að fara eftir þeim viðmiðunum sem við settum okkur hér, þingið sjálft. Sá samningur sem við erum að tala um í dag fylgir ekki þeim viðmiðunum að okkar mati. Það er ekki flokkshagsmunamat, það er ekki hjólfarapólitík sem við erum að stunda hér heldur okkar kalda hagsmunamat að sá samningur sem við erum að ræða um sé ekki boðlegur. Við getum ekki skrifað undir af því að of miklir hagsmunir eru í húfi. Þess vegna segjum við sjálfstæðismenn: Við viljum semja aftur. Við viljum láta á það reyna. Við viljum láta á það reyna hjá okkar vinaþjóðum.

Um leið og við hugsum aftur söguna þá voru aðstæður allar aðrar. Menn voru að fara á taugum, stóru fjármálaþjóðirnar eins og Englendingar, líka okkar vinaþjóðir — það er rétt sem kom fram hjá heilbrigðisráðherra — okkar vinaþjóðir nema Færeyingar. Allir vildu tryggja þetta þannig að ekkert færi úr böndum. En það fór svo sannarlega úr böndum. En í dag er alþjóðakerfið að laga sig betur. Það er vonandi að rétta úr kútnum. Þjóðverjar sem voru æfir þá vita það í dag að þeir fá allar sínar innstæður greiddar. Þeir eru mun rólegri þannig að það er að losna úr þessu öllu saman. Samningsaðstaða okkar á að vera mun betri. Ég ætla ekki að fara að fjargviðrast út í það hvort samninganefndin sé rétt skipuð eða ekki. Ég tel hana hins vegar ekki hafa náð eins góðum samningi og allar forsendur voru til að ætla að mínu mati. Þess vegna er ekki hægt að koma hingað upp og veifa þessu minnisblaði sem var gert á sínum tíma: Málin hafa þróast á allt annan veg. Við skulum hafa þau atriði á hreinu. Viðmiðin eru okkar leiðarljós. Það er ekki verið að fara eftir þeim.

Ég komst reyndar ekki að í óundirbúnum fyrirspurnum í morgun þegar ég ætlaði að ræða við forsætisráðherra um þessar þversagnir alltaf í málflutningi stjórnarliða. Við vitum að lánið frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum dregst núna. Það átti að koma í júní. Hæstv. fjármálaráðherra sagði að það kæmi örugglega í júlí, á milli 18. og 20. júlí. Við gerðum okkur grein fyrir því að það þyrfti að ná stöðugleikasáttmálanum sem var vel. En enn og aftur dregst málið á langinn. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn segir að það sé út af tæknilegum forsendum. Reyndar eru það risatæknilegar forsendur því það er hvorki meira né minna en endurreisn bankanna sem hefur tafist von úr viti síðan nýja verkstjórnin tókst á við viðfangsefnin. Það þarf að koma með almennileg ríkisfjármál og það þarf að gera miklu fleira, athuga vaxtapólitíkina og fleira. Þetta allt hefur beðið frá því að þessi ríkisstjórn tók við völdum og við sjáum ekki fram á annað en aukið atvinnuleysi, því miður vaxandi verðbólgu á ný sem leiðir til þess að vextirnir standa algjörlega í stað. Því miður var morguninn þannig að vextirnir lækkuðu ekki eins og við vonuðumst til og bæði forsætisráðherra og fjármálaráðherra gáfu von um að það yrði rausnarleg vaxtalækkun í dag. Svo varð ekki. Það er meðal annars út af því að ekki er haldið nægilega vel á þessum tæknilegum hliðum sem tefja lánið. Eða getur verið að Icesave-samningurinn sé það sem tefur málið? Við erum búin að fá svör við því í dag. Bæði fjármálaráðherra og heilbrigðisráðherra hafa, í staðinn fyrir það sem þeir hafa gert og aðrir stjórnarliðar á undanförnum dögum og vikum, sagt það hér í dag skýrt og skorinort að við verðum að klára þennan Icesave-samning út af Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, að við verðum að gera það. Og það er þvert reyndar á það sem Franek Rozwadowski, talsmaður Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hér á landi, segir þannig að þetta er mjög athyglisvert og það væri gott að fá það á hreint. Stundum er haldið í Icesave-samninginn, sagt að hann sé algert lykilatriði, að við verðum að koma okkur áfram út af honum, fá lánið frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, og stundum ekki. Það fer allt eftir því hvað hentar hverju sinni hvaða málflutningur er viðhafður.

Menn hafa líka spurt sig réttilega: Allt í lagi, ef við ætlum að fella samninginn, hvað þá? Hvað ætlum við að gera ef við fellum samninginn? Ég tel allar forsendur vera til þess, eins og ég gat um áðan, í ljósi þeirrar þróunar, ekki bara varðandi vexti í heiminum heldur varðandi aðra þróun á alþjóðamörkuðum að við gætum náð betri samningi en þessum. Alla vega er ljóst að það þarf að laga hann umtalsvert og ég vonast til þess að þær nefndir sem fá hann til umfjöllunar muni leita allra leiða til að ná sem skynsamlegastri niðurstöðu fyrir land og þjóð.

Um daginn heimsóttu okkur utanríkisráðherrar Norðurlandanna, þar á meðal Carl Bildt, utanríkisráðherra Svía. Það hefur verið dregið margoft fram að það sé mikilvægt atriði að sækja um aðild og ríkisstjórnin með forsætisráðherra og fjármálaráðherra í broddi fylkingar ætla sér að sækja um aðild að Evrópusambandinu vegna þess að Svíar eru í forustu. Það má skilja það svo sem. En á móti hafa Evrópusambandsþjóðir dregið fram hvað Ísland hafi fram að færa fyrir Evrópusambandið. Þá er eðlilega dregin fram okkar þekking á auðlindum lands og sjávar, orkuþekkingin okkar. Síðan er alltaf sagt að það sé svo rík lýðræðishefð á Íslandi. Það er lýðræðishefð og þekking sem er mikil á Íslandi umfram önnur lönd og þarna er starfandi elsta þjóðþing í heimi og það er alveg rétt. Því spyr ég: Hví ættu Evrópusambandsþjóðirnar og þjóðir sem alla jafna eiga að vera okkar vinaþjóðir að standa í vegi fyrir því að elsta þjóðþing í heimi nýti þennan lýðræðislega rétt sinn í þingmáli eins og snertir Icesave-samninginn og segi einfaldlega: Við getum ekki fallist á þær forsendur sem eru gefnar? Við ætlum að fella þennan samning en við viljum semja á ný. Við viljum að tekið sé aukið tillit til okkar hagsmuna, ríkara heldur en áður hefur verið og að það verði gert.

Mig langar að spyrja hæstv. fjármálaráðherra að tveimur atriðum sem ég tel mikilvægt að fá svar við. Ella verður það einfaldlega gert í nefndinni. Við vitum að íslenskar lögmannsstofur og lögmenn hafa sett fram mjög gild lögfræðiálit hvað varðar rétt okkar til að fara með málið fyrir dómstóla, líka hvort ríkisábyrgð sé á innstæðunum í tryggingarsjóðunum eða ekki, hvort við ættum að tryggja ríkisábyrgð á öllu því sem umfram er í tryggingarsjóðunum. Íslenskir lögmenn hafa mjög efast um þetta og sett fram mjög gild rök fyrir því að ekki sé ríkisábyrgð á þessu. Ég spyr: Leitaði samninganefndin með Svavar Gestsson í broddi fylkingar eftir því við virtar erlendar stofur ráðgjafa, meðal annars lögfræðistofuna erlendu — ensku held ég að hún hafi verið — leitaði samninganefndin eftir því að útbúa slíkt álit, afgerandi álit um það hvort Ísland í raun þyrfti að setja fram ríkisábyrgð í þessu máli, að bak við allt þetta mál væri ríkisábyrgð? Komu erlendir sérfræðingar að því? Leitaði samninganefndin eftir þessu áliti og ef svo er, hvar er þá það álit? Og ég spyr: Ef það var ekki gert, af hverju var það þá ekki gert? Af hverju var ekki leitað eftir því hjá erlendu sérfræðingunum hvort það væri í raun og sann ríkisábyrgð á þessu því við sjáum það, og um það eru vísbendingar af hálfu til að mynda Frakka, að þeir sætta sig ekkert við að ríkisábyrgð sé á öllu heila klabbinu þegar það snertir þá. Af hverju gildir þá ekki það sama um okkur? Var leitað eftir — eins og það er oft kallað — faglegum sérfræðingum þegar kemur að þessu atriði?

Ég vil líka spyrja hæstv. fjármálaráðherra um Heritable bankann breska sem Landsbankinn tók yfir og keypti á sínum tíma. Bankinn sá var sterkur banki, Heritable bankinn, og mun endurgreiða nokkurn veginn allar sínar kröfur. Því vakti það samkvæmt mínum upplýsingum miklar spurnir meðal sérfræðinga af hverju því var ekki haldið á lofti að við mundum fara í málaferli vegna þessa, þ.e. að við höfum enn þá þrátt fyrir hryðjuverkalögin tækifæri til að fara í sterka málsókn gagnvart fjármálaeftirlitinu breska vegna yfirtöku Breta á Heritable bankanum. Hefði það ekki getað bætt okkar samningsstöðu ef Bretarnir sæju fram á að við mundum halda fast á okkar rétti þegar kemur að þeim banka, að við mundum reyna að verja hagsmuni tengda honum, því ef svo er og ef svo hefði verið þá hefðu hugsanlega þeir fjármunir og þær eignir sem eru í Heritable bankanum getað gengið mjög langt upp í Icesave-skuldina? Ég vil fá að vita hvort litið hafi verið gaumgæfilega yfir alla þætti málsins sem hefðu getað styrkt okkar stöðu í samningunum. Ég efast ekki um að fjármálaráðherra mun koma hingað upp og segja: Já, það var gert. En mér er til efs um að svo hafi verið. Ég ítreka að ég tel að miklir hagsmunir hefðu verið fólgnir í því fyrir okkur Íslendinga að ná samningum í þessu máli og gefa aldrei eftir í að leita eftir rétti okkar samkvæmt lögformlegum leiðum. Það skiptir okkur miklu máli.

Það skiptir líka máli að það verði dregið hér fram að það eru ekki hagsmunir eða kappsmál okkar sjálfstæðismanna að fella þessa ríkisstjórn þó það væri óskandi. Ég er sammála Pétri H. Blöndal. Það væri ekki óskandi eins og staðan er núna að fara enn og aftur í stjórnskipulega ringulreið. Það mál hefur allt tafið bataferlið um hálft ár að við skiptum um ríkisstjórn. Vextirnir hafa lækkað hægar og svo framvegis. Við ætlum að taka efnislega afstöðu til þessa máls, málefnalega afstöðu. Við munum fara vel og gaumgæfilega yfir alla þætti málsins í þeim nefndum þar sem málið kemur til umfjöllunar. Við verðum ekki í þessari hjólfarapólitík sem sumir hafa verið að kalla eftir. Við munum taka efnislega afstöðu til þessa máls og eins og málið er útbúið af hálfu ríkisstjórnarinnar sem ber alla ábyrgð á því — við skulum muna að það var þessi ríkisstjórn sem skipti um samninganefnd, sem breytti verklaginu, tók verkstjórnina í sínar hendur. Hún ber ábyrgð á þessu máli eins og það liggur fyrir. Við munum fara málefnalega yfir það, efnislega í nefndum og gera hvað við getum til að koma Íslandi aftur á réttan kjöl.