137. löggjafarþing — 33. fundur,  2. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[16:03]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég segi það enn og aftur að mér finnst pínulítið aumkunarvert að heyra hvernig Samfylkingin er að fría sig af öllum verkum í fyrri ríkisstjórn. Það var margt gott sem sú ríkisstjórn gerði. En henni urðu á líka mistök, bæði Sjálfstæðisflokknum og Samfylkingunni og reynið nú að viðurkenna það. Ég nenni ekki að vera hérna í einhverri pissukeppni (Fél.- og trmrh.: Hvaða mistök?) því að tæknilega mun hæstv. ráðherra sigra þá pissukeppni mjög auðveldlega.

Þetta er bara einfaldlega þannig að það var hér ríkisstjórn sem gerði ákveðna hluti á undan þessari ríkisstjórn. Margir hlutir voru góðir. Margir hlutir hefðu mátt vera betur gerðir. En það er alveg ljóst að Memorandum of Understanding eða minnisblaðið sem sagt var gert undir forustu utanríkisráðuneytisins. Báðir flokkarnir vissu af þessu. Bæði forsætisráðherra og utanríkisráðherra vissu af þessu. Utanríkisráðuneytið vissi líka af samtali forsætisráðherra við hollenska forsætisráðherrann. Það þýðir ekki að vera hér að tipla á tánum og þykjast ekki kannast við neitt. Við eigum að reyna að koma okkur út úr vanda. Við erum ósammála um það hvort þessi samningur sé góður eða slæmur.

Ég tel að samningurinn sem við erum að tala um í dag sé óásættanlegur. Ég tel hæstv. ráðherra og ríkisstjórnina ekki til að mynda vera að fylgja eftir þeim viðmiðum sem meðal annars hæstv. ráðherra fylgdi úr hlaði sem varaformaður utanríkismálanefndar á sínum tíma. Ég tel ekki ríkisstjórnina vera að fara eins langt og hægt er til þess að ná fram bættum hagsmunum fyrir Íslendinga. Það er mín skoðun. Ég ætla ekki að vera að fjargviðrast um það hvort Samfylkingin hafi verið heilög af öllu. Hún er það ekki. Við vorum bæði í ríkisstjórninni síðustu og við skulum bara einfaldlega viðurkenna það.