137. löggjafarþing — 33. fundur,  2. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[16:07]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Stór hluti af þessari umræðu snýst svolítið um hver sagði hvað, hvenær og hvers vegna og það er eiginlega sorglegt að hlusta á það. Mér finnst umræðan of mikið snúast um slíkt. Ég tók ekki þátt í þessum ákvörðunum eða gjörðum frá þessum tíma. Ég er að reyna að koma að málinu með því að safna saman upplýsingum og taka upplýsta ákvörðun.

Mig langar að velta fyrir mér þeim orðum þingmannsins sem sagði: „Ég vil láta á það reyna hvort við fáum betri samning.“ Þá langar mig að velta því fyrir mér: Hvað heldur þingmaðurinn að gerist ef við höfnum þessum samningi? Þá þætti mér vænt um ef við mundum setja okkur í spor viðsemjenda okkar. Er hagkerfi þeirra ekki í verri stöðu nú en það var í október? Hafa til dæmis ekki umræður á hollenska þinginu snúist um að það sé ósanngjarnt að Hollendingar séu að taka á sig hlut skuldanna? Má ekki … (Gripið fram í.) Fyrirgefðu. Ég er að tala. Má ekki til dæmis velta fyrir sér þeirri stöðu Breta að skuldir þeirra muni væntanlega nema 90% af vergri þjóðarframleiðslu strax á þessu ári (Gripið fram í.) og að þeir muni skulda meira en við eftir þrjú til fjögur ár? (Gripið fram í.)

Þess vegna segi ég: Lykilatriði fyrir okkur er að horfa fram á við og taka upplýsta ákvörðun um stöðu mála í dag út frá þeim upplýsingum sem við okkur og ekki velta okkur allt of mikið upp úr fortíðinni, hver sagði hvað, hvenær og hvers vegna. (Gripið fram í: Einmitt.) Svo skulum við taka upplýsta ákvörðun um hvað best sé fyrir okkur í stöðunni í dag.

Þess vegna langar mig til að spyrja hv. þingmann: Telur hún í raun og veru ef við höfnum þessum samningi núna að við munum vera í betri samningsaðstöðu? Ég held að staða viðsemjenda okkar sé verri og ég held að við munum ekki hljóta miklar þakkir fyrir ef við setjum allt samningsferlið upp í loft aftur bæði hvað varðar okkar eigin efnahagsstöðu og svo af því að fram undan verður reiptog um kjör upp á nýtt og það kemur til með að taka langan tíma.