137. löggjafarþing — 33. fundur,  2. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[16:09]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég fagna því sérstaklega að hér er kominn þingmaður frá Samfylkingunni sem horfir til framtíðar og kemur fram hér með málefnalega fyrirspurn að mínu mati. Ég þakka sérstaklega fyrir það þó að sagan í þessu samhengi skipti miklu máli til þess að átta sig á af hverju við erum að deila um samninginn með þessum hætti eins og raun ber vitni.

Allt í lagi, setjum okkur í stöðu Hollendinga og Breta, setjum okkur í stöðu Evrópusambandslandanna sem þrýstu mikið á okkur á sínum tíma. Ég ræddi það áðan í minni ræðu. Það er allt önnur aðstaða hjá Þjóðverjum í dag en var þá. Þeir vita að þeir fá sínar innstæður greiddar. Það verður ekki eins mikill pólitískur þrýstingur í Þýskalandi og var og hefur verið annars staðar. En setjum okkur í stöðu Hollendinga og Breta. Ég held að þeir mundu segja sem viti bornar þjóðir, sem meðlimir í Evrópusambandinu, að þeir muni líta þessarar gömlu lýðræðisþjóðar og segja sem svo: „Þarna er elsta þjóðþing í heimi að taka lýðræðislega ákvörðun. Þingmenn eru að taka ákvörðun og greiða atkvæði eftir sinni bestu samvisku. Við ætlum að virða það. Þar fyrir utan viljum við ekki sökkva þessari þjóð í peningalegt glapræði og festa þjóðina í skuldir um aldur og ævi.“