137. löggjafarþing — 33. fundur,  2. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[16:14]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Það er rétt að Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið og var við stjórnvölinn í 18 ár, hlustaði oft, stundum ekki nógu mikið. Ég viðurkenni það alveg. En ég vil líka draga það fram að á fjögra ára fresti fór flokkurinn eins og allir aðrir stjórnmálaflokkar út og háði sína kosningabaráttu og sótti umboð sitt til þjóðarinnar. Á fjögra ára fresti fórum við til þjóðarinnar og við fengum stuðning, 1995, 1999. Þá unnum við stórsigur. 2003 gaf aðeins á bátinn og við unnum aftur stórsigur 2007. Það er ekki eins og við höfum farið bara út í samfélagið og tekið völdin án þess að hafa talað við kóng né prest. Við fórum til þjóðarinnar, við töluðum við hana og við fengum stuðning og fórum síðan í þá samvinnu sem í raun kosningarnar hverju sinni gáfu til kynna.

Ég tel að fullt tilefni sé til þess að átta sig á að við getum fengið betri samning og yfir það munum við fara í nefndum, til að mynda hvað það þýði að við höfum ekki skoðað nægilega okkar hagsmuni sem gætu falist í því að verja þá í tengslum við Heritable bankann. Þar liggja ríkir hagsmunir Breta. Erum við að rugga bátnum? Ef við færum af stað værum við þá að rugga bátnum að mati Breta þannig að þeir vilji hugsanlega þá koma í veg fyrir að við sækjum eða verjum okkar hugsanlegu hagsmuni á þeim vígstöðvum?

Ég vil líka gefa það til kynna að ég tel að það hafi ekki verið nægilega athugað, og það ekki bara af hálfu íslenskra lögfræðinga heldur líka erlendra lögfræðinga, hvort ríkisábyrgð væri á málinu öllu. Ég spyr: Ef Evrópusambandið og Hollendingar og Bretar segja að ríkisábyrgð sé á öllum þessum skuldbindingum, af hverju erum við þá að fjalla um það hér í þinginu, þ.e. ef þessi ríkisábyrgð er hvort sem er?