137. löggjafarþing — 33. fundur,  2. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[16:20]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Ég vil í upphafi ræðu minnar þakka fundarstjórn frú forseta. Það er ekki oft sem við höfum gert það hér á þessu sumarþingi. En ég þakka fyrir það hvernig hæstv. forseti vill haga þingstörfum. Í ljósi þess að hér er um 1. umr. að ræða og við eigum eftir að eiga einar þrjár umræður um þetta mikilvæga mál mun ég sætta mig við það jafnvel að síðar í minni ræðu eða kveðja mér aftur hljóðs og spyrja hæstv. ráðherra ítrekað út úr því mér finnst í raun í umræðu sem þessari nauðsynlegt að forustumaður ríkisstjórnarinnar sé viðstaddur umræðu. Mér finnst það í raun hálfdapurlegt að hæstv. forsætisráðherra skyldi ekki hafa verið talsmaður Samfylkingarinnar í þessari umræðu sem fjallar um stærstu skuldbindingar sem íslenskur almenningur mun taka ábyrgð á ef af verður og við munum vonandi koma í veg fyrir á vettvangi Alþingis.

Ég vil segja það upphaflega að ég átta mig alveg á því að staða hæstv. fjármálaráðherra er síst af öllu öfundsverð og að hans flokkur hefur ekki farið með stjórnartaumana í landinu á undangengnum árum. Hins vegar er sá gjörningur sem við ræðum mjög stór ákvörðun og hæstv. ráðherra getur með engu móti fríað sig þeirri ábyrgð hvernig við ljúkum þessu máli. Ég vil líka í upphafsorðum ræðu minnar hvetja til þess að við náum samstöðu á Alþingi um það hvernig við ætlum að vinna þessi mál áfram óháð stjórn og stjórnarandstöðu og vitna ég þar til mjög góðrar ræðu sem hæstv. heilbrigðisráðherra Ögmundur Jónasson hélt.

Frú forseti. Í morgun svaraði hæstv. forsætisráðherra fyrirspurn Vigdísar Hauksdóttur. Hv. þingmaður spurði hæstv. forsætisráðherra út í stöðu Landsvirkjunar og stöðu ríkissjóðs í því samhengi. Efnislega svaraði hæstv. forsætisráðherra þingmanninum ekki neinu sem er fáheyrt og sagði efnislega að Samfylkingin væri nú að moka flórinn eftir framsóknarmenn. Það var mjög efnisríkt svar hjá hæstv. forsætisráðherra (Gripið fram í.) sem ber vitni um mjög fagleg vinnubrögð á því heimili og mjög málefnalega umræðu. En mig langar að rifja það aðeins upp hér að hæstv. forsætisráðherra varð ekki ráðherra í gær heldur fyrir rúmum tveimur árum. Þegar ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks tók við 2007 voru viðskiptavinir Icesave 80 þúsund og innlánin voru 3 milljarðar punda. Í ágúst 2008 nokkrum mánuðum fyrir bankahrunið voru viðskiptavinirnir orðnir 350 þúsund talsins og heildarupphæðin hafði áttfaldast á tímabili. Nú vil ég rifja það upp fyrir Samfylkingunni að Samfylkingin fór með ráðuneyti viðskiptamála og líka utanríkisráðuneytið. Ég spyr því hv. þingmenn Samfylkingarinnar í þessari umræðu hvort þetta sé framsóknarflórinn sem hæstv. forsætisráðherra tjáði sig um í morgun. Það varð nefnilega á vakt Samfylkingarinnar sem þessar Icesave-skuldbindingar fóru úr hömlu. Meðal annars má geta þess sérstaklega að í maí 2008, ári eftir að ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks tók við völdum hér á landi, voru Icesave-reikningar einnig opnaðir í Hollandi. Þetta var á sama tíma og íslensku og bresku fjármálaeftirlitin voru farin að funda vegna þess að eftirlitin höfðu áhyggjur af miklum vexti Icesave-reikninganna í Bretlandi og skuldbindingum þeirra vegna.

Þegar reikningunum í Hollandi var lokað voru innlánin um 1.600 milljónir evra. Þessi gríðarlegi vöxtur átti sér stað í stjórnartíð Samfylkingarinnar sem fór með ráðuneyti viðskiptamála. Það er í besta falli hlægilegt að fylgjast með hv. þingmönnum og hæstv. ráðherrum Samfylkingarinnar ætla að reyna að fría sig ábyrgð í þessu máli. Hæstv. fjármálaráðherra á alla mína samúð í þessu því að mér sýnist að Samfylkingin ætli að láta Vinstri hreyfinguna – grænt framboð sitja uppi með þetta mál. Eins og einhver nefndi hér áðan þá má ekki nefna Samfylkinguna á nafn í þessari umræðu. Hún þykist ekki bera neina ábyrgð. Ja, sei, sei. Þannig er það ekki og staðreyndirnar tala sínu máli.

Ég hef tekið harðar snerrur á vettvangi þingsins við hæstv. fjármálaráðherra. Mig langar að spyrja hann nokkurra efnislegra spurninga og fá endanlega staðfest hvort það hafi virkilega verið svo að forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar eða fulltrúar þeirra hafi skrifað undir þetta Icesave-samkomulag án þess að hafa gert fullnægjandi áætlanir um það hvernig íslenskur almenningur — því íslenskur almenningur mun borga þennan reikning á endanum — hvort íslensk þjóð og almenningur gætu staðið undir því vegna þess að aðstoðarmaður hæstv. ráðherra sagði á þingflokksfundi okkar framsóknarmanna að núna væri verið að vinna að þessari greiðsluáætlun og það var eftir að búið var að skrifa undir. Ef það er rétt þá er um slíkt ábyrgðarleysi að ræða fyrir hönd íslensku þjóðarinnar að við það verður ekki unað. Við krefjumst skýringa á því hvernig standi á því að íslensk stjórnvöld skyldu ekki hafa verið búin að gera þessar áætlanir þannig að þau hefðu getað komið fram fyrir sína viðsemjendur og sagt: „Ja, þetta er það sem við getum staðið undir. Þetta er sú greiðslubyrði sem íslenskur almenningur mun geta staðið undir á næstu árum.“

Ég tel og fer ekkert í launkofa með að það hefði verið hægt að haga þessum viðræðum með allt öðrum hætti og þá hefðu menn þurft að gera sér grein fyrir því undir hverju við getum staðið til næstu ára. Af því að við erum að tala hér um skuldir almennings sem íslenska þjóðin mun þurfa að borga þá vil ég spyrja hæstv. fjármálaráðherra að því hvort skuldir sveitarfélaga hafi verið teknar með þegar greiðslugeta samfélagsins í heild sinni er reiknuð.

Nú eru skuldir íslenskra sveitarfélaga 500 milljarðar kr. Mörg sveitarfélög stefna í mjög alvarleg vandræði og það er alveg óljóst að að öllu óbreyttu mun ríkisvaldið þurfa að aðstoða sveitarfélögin ef fram heldur sem horfir. Það mun þýða auknar skuldbindingar fyrir íslenskan ríkissjóð. Ég hefði haldið í ljósi þess að við erum að tala um hitt stjórnsýslustigið hér, sveitarfélögin, að hæstv. ráðherra og hans ráðuneyti séu búin að gera áætlanir um það hvort við stöndum undir öllum þessum heildarskuldbindingum því hér er fjallað um skuldir ríkissjóðs upp á 1.500 milljarða. Það eru nokkur hundruð milljarðar að láni inni í Seðlabankanum. Það eru 500 milljarðar sem almenningur skuldar í gegnum íslensk sveitarfélög. Mér finnst eins og hæstv. ríkisstjórn hafi í raun enga heildarmynd af stöðu mála og hver greiðslugeta íslensks almennings, hins vinnandi Íslendings, sé í raun til lengri tíma litið.

Ég velti því líka fyrir mér í ljósi þess hversu einörð ríkisstjórnin er í því að greiða þessa himinháu vexti vegna Icesave-samkomulagsins. Reyndar heldur ríkisstjórnin því fram í hinu orðinu að þetta séu glæsileg kjör. Það eru þau glæsilegu kjör að á fyrsta ári munum við greiða 42 þúsund milljónir í vexti, bara í vexti. Og hvert var fyrsta verk velferðarstjórnar hæstv. forsætisráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur á sumarþingi? Jú, það var að skera kjör lífeyrisþega niður um 3.600 milljónir og skera kjör námsmanna við háskóla landsins um 1.300 milljónir. Þetta gerir heilar 5.000 milljónir. Ef við setjum vaxtagreiðslurnar í þetta samhengi þá eru þær 42 þús. milljónir kr. bara fyrsta árið. Maður veltir því fyrir sér hver forgangsröðun þessarar ríkisstjórnar sé í þessum efnum. Ekki var að heyra á hæstv. fjármálaráðherra í aðdraganda síðustu kosninga að staðan væri svo slæm og við framsóknarmenn vorum sakaðir um að mála skrattann á vegginn. En nú er bara komið á daginn að staðan er grafalvarleg og grípa þarf til margra erfiðra aðgerða.

Maður veltir því fyrir sér hvað breyttist hjá íslenskum ríkissjóði og hjá ríkisstjórninni á þessum örfáu vikum sem liðnar eru frá kosningum. Hvers vegna er málflutningurinn allur annar í dag? Var ekki sagt: „Við ætlum að standa vörð um velferðina. Við ætlum að slá skjaldborg um aldraða og öryrkja og þá sem minna mega sín“? En eitt af fyrstu verkum hér er að leggja þetta mál fram ásamt skerðingum til þeirra sem síst skyldi.

Frú forseti. Það sem ég hef áhyggjur af í íslensku samfélagi í dag er algert forustuleysi. Hvar er baráttuandinn í forustu ríkisstjórnarinnar? Ég sagði frá því áðan að hæstv. forsætisráðherra hefur ekki enn kvatt sér hljóðs í þessari umræðu. Hún var ekki einu sinni talsmaður eigin flokks þegar við erum að ræða um mestu ábyrgðir sem verið er að undirgangast í sögu lýðveldisins. Þjóðin þarf á stjórnvöldum að halda sem þora að standa vörð um efnahagslegt sjálfstæði landsins. Ég auglýsi eftir einhverjum eldmóði. Ég auglýsi eftir einhverjum baráttukrafti sem við finnum úti í salnum frá forustumönnum ríkisstjórnarinnar sem reyndar hæstv. forsætisráðherra hefur ekki enn tekið þátt í í þessari mikilvægu umræðu. Við hljótum að auglýsa eftir því.

Ég vil segja það að lokum, frú forseti, að ég tek hlutverk mitt á Alþingi Íslendinga mjög alvarlega og ég kæri mig ekki um að vera sakaður um að vera í einhverju hjólfari stjórnar eða stjórnarandstöðu. Við framsóknarmenn höfum talað mjög einarðlega í þessu máli á undangengnum vikum og það hefur ekki alltaf verið til vinsælda fallið eins og frægt er. Ég hvet hæstv. fjármálaráðherra sem ég vona að hafi hlýtt með athygli á ræðu hæstv. heilbrigðisráðherra Ögmundar Jónassonar þar sem hann hvatti til þess að við stöndum saman á vettvangi Alþingis, sama í hvaða flokki við erum — við erum að tala um skuldbindingar til áratuga og samkvæmt þeim útreikningum sem við framsóknarmenn höfum fyrir framan okkur þá er þetta reikningsdæmi einfaldlega ekki að ganga upp. Við þurfum að horfast í augu við það frekar en skrifa blindandi undir þetta samkomulag hér og ætla síðan að fara að semja aftur að sjö árum liðnum. Hvaða tryggingu höfum við fyrir því að okkur verði eitthvað betur tekið þá? Trúlega munu menn vilja semja við okkur. En þeir samningar verða ekki í formi þess að fella niður neinar skuldir að mínu viti. Nei, það verður lengt í ólinni. Lánin verða lengd og lífskjör halda áfram að skerðast á Íslandi. Þess vegna kem ég hér upp og bið einlæglega hæstv. fjármálaráðherra að reyna að kynna sér sjónarmið þeirra sérfræðinga sem segja einfaldlega að við stöndum ekki undir þessum skuldbindingum öllum. Við eigum að fara til okkar viðsemjenda á grundvelli slíkra útreikninga sem ekki var gert í tilfelli þessarar ríkisstjórnar og segja að þetta sé það sem við getum reitt fram, í staðinn fyrir að skrifa undir einhverjar gríðarlega háar skuldbindingar og ætla að reikna sig eftir á niður á einhverjar niðurstöðu um að þetta verði bara vel framkvæmanlegt. Þess vegna ítreka ég spurningu mína til hæstv. ráðherra: Hefur hæstv. fjármálaráðherra tekið inn í reikninginn alvarlega stöðu sveitarfélaganna í landinu sem eru skuldir íslensks almennings líka með tilliti til þessara skuldbindinga sem við ræðum hér? Ég vona að við fáum að fara mjög ítarlega yfir þetta mál á vettvangi þingsins. Nú mun reyna á þingræðið. Ég á von á því að þær nefndir sem munu fjalla um þessi mál muni kalla eftir því að Alþingi láti fara fram óháða úttekt á öllum þessum skuldbindingum og hvað þær þýði fyrir íslenskt samfélag. Þá meina ég óháða úttekt. Það mun hugsanlega kosta einhverjar milljónir króna eða hundrað þúsund kalla. En við erum að tala um stærstu skuldbindingar í sögu lýðveldisins. Alþingi Íslendinga þarf að fara yfir þessi mál með mjög vel ígrunduðum hætti.

Mér er í raun nokkur léttir í því að hafa hlustað á ræðu hæstv. ráðherra Ögmundar Jónassonar í þessari umræðu því ég hélt að forustumenn þessarar ríkisstjórnar væru búnir að geirnegla sína þingmenn í þessum efnum. Ég vona heitt og innilega að við getum komist að sameiginlegri niðurstöðu á vettvangi þingsins um að samþykkja ekki það samkomulag sem liggur hér fyrir. Við skulum semja upp á nýtt og við skulum gera það saman. Við skulum gera það sem þjóð. Við skulum ekki gera það sem stjórn eða stjórnarandstaða. Við skulum koma fram og ganga út úr þessum sal sem einn maður og við skulum vera full þjóðarstolts fyrir hönd þjóðarinnar og sýna það að við getum komið okkur upp úr þeim skotgröfum sem þessi umræða hefur því niður verið í. Ég vil benda hæstv. ráðherrum á að fjölmargir af flokksmönnum þeirra eru efnislega sammála því sem hæstv. ráðherra Ögmundur Jónasson hefur sagt hér, sem ýmsir framsóknarmenn, sjálfstæðismenn eða þingmenn Borgarahreyfingarinnar hafa sagt hér. Ef við komum okkur upp úr þeim hjólförum sem við erum í þá getum við staðið saman. Við getum náð betra samkomulagi og þannig getum við stuðlað áfram að góðum lífskjörum hér á landi fyrir komandi kynslóðir því ég tel mjög varasamt — og ég hafna því algerlega — að skrifa undir þetta samkomulag eins og það kemur mér fyrir sjónir hér.