137. löggjafarþing — 33. fundur,  2. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[16:39]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Málflutningur okkar framsóknarmanna í aðdraganda kosninga var sá að þessi ríkisstjórn gerði sér í raun og veru ekki grein fyrir því hversu alvarlegur vandinn var og viðkvæði ríkisstjórnarinnar sem við studdum þá vantrausti reyndar um nokkurra mánaða skeið var að þetta væri allt tómur misskilningur hjá okkur framsóknarmönnum og að við værum að mála skrattann á vegginn. Nú hefur komið í ljós að svo var ekki.

Ég vil minna á að í frægum þætti sem við hæstv. ráðherra sátum í Ríkissjónvarpinu í aðdraganda kosninga tilkynnti hæstv. samgönguráðherra þjóðinni að botninum væri náð frá og með þeim degi. Ég held að hlutirnir hafi farið eitthvað niður á við í kjölfarið þannig að sú bjartsýnisspá hæstv. ráðherra (Gripið fram í.) hefur ekki gengið eftir.

Ég átta mig ekki alveg á því af svörum hæstv. ráðherra hvort ríkisstjórnin sé búin að gera einhverja greiningu á því hver staða sveitarfélaganna sé því að að öllu óbreyttu tel ég að ríkið þurfi möguleika að koma með einhverjum hætti að gríðarlegri skuldsetningu sveitarfélaganna í landinu. Mörg sveitarfélög glíma við gríðarlega erfiðleika nú um þessar mundir. Það er alveg ljóst að eitthvað verður að gera til að koma til móts við þann mikla vanda sem við blasir. Auk þess er ljóst að í ríkisfjármálum næstu ár munu jafnvel framlög til sveitarfélaganna minnka eitthvað. Það má alla vega búast við því þannig að myndin verður ekki bjartari við það. Ef hæstv. ráðherra telur það léttvægt — af því að ég get ekki séð að tekið sé mikið tillit til skulda sveitarfélaganna í þessu plaggi sem hæstv. ráðherra er með hér og hefur dreift, sem er upp á 500 milljarða kr. — ef honum finnst það léttvægar upphæðir þá get ég vel skilið að hann sé ánægður með þetta Icesave-samkomulag eða upphæðirnar sem við erum að greiða í vexti þar, sem hann hefur lýst að séu mjög vel ásættanlegar.