137. löggjafarþing — 33. fundur,  2. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[16:45]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Bhr):

Frú forseti. Síðasta mánudag var haldinn opinn borgarafundur í Iðnó þar sem fjallað var um Icesave-samninginn út frá mörgum hliðum. Þar var hæstv. fjármálaráðherra Steingrímur J. Sigfússon einn frummælenda. Á fundinum sagði hann, með leyfi forseta, að það yrðu ekki Icesave-samningarnir sem mundu knésetja Ísland ef svo illa færi. „Það eru aðrir nærtækari hlutir sem eru okkur hættulegri,“ sagði hæstv. ráðherra.

Ég held að það sé ýmislegt til í þessu. Í gegnum tíðina höfum við Íslendingar verið lagnir við að vera á spenanum hjá umheiminum. Við vorum fátæk nýlenda öldum saman og höfðum takmarkað vald. Svo kom hernámið, Marshall-aðstoðin og herstöðin. Við fengum álver sem átti öllu að redda og þannig koll af kolli. Íslenska útrásin, efnahagsundrið mikla, var af þessari sort. Loftbólugróði byggður á sparifé Evrópubúa og okkur ekki til góðs.

Lönd sem hafa verið nýlendur eiga ýmislegt sameiginlegt. Í byrjun 20. aldar nutu áður undirokaðar þjóðir ekki sannmælis á alþjóðlegum vettvangi þrátt fyrir fögur fyrirheit fyrrverandi nýlenduherra, til dæmis Breta og Hollendinga. Nýlendurnar höfðu verið blóðmjólkaðar og svo voru þjóðirnar skildar eftir bláfátækar og umkomulausar í eigin landi. Mér finnst óhugnanlegt að sjá þessa kenningu eftirlendufræðanna birtast á Íslendingum í byrjun 21. aldar þó með öfugum formerkjum sé. Danir voru sennilega skástu nýlenduherrar sem hægt var að hafa. Við fengum meira að segja handritin aftur.

Nú steðjar að okkur hætta frá öðrum nýlenduherrum. Hér starfar landstjóri á vegum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem tók það sérstaklega fram í dag að hann ætlaði að halda vöxtunum háum áfram. Hverra hagur er það? Nýlenduherrarnir í Bretlandi, Hollandi og Evrópusambandinu eru ekkert betri. Icesave er ef til vill ekki það versta en Icesave er dropinn sem fyllti mælinn. Icesave-skuldirnar eru skuldirnar sem gera út af við greiðsluþol þjóðarinnar. Icesave-skuldirnar eru tilkomnar vegna þeirra sem rændu okkur ærunni, sjálfsvirðingunni og lífsgæðum komandi kynslóða Íslendinga. Þeir voru kenndir við víkingana sem fóru rænandi og ruplandi um Evrópu fyrir 1000 árum síðan. Þeir voru kallaðir útrásarvíkingar og lifðu sig svo inn í ímyndina að þeir arðrændu Evrópubúa í stórum stíl og nú er komið að okkur að borga á meðan þeir sóla sig á Tortola.

Í Icesave-málinu kristallast hrunið. Nokkrir menn lögðu þjóðfélagið í rúst. Regluverkið var gallað því svona lagað á ekki að geta gerst. Íslensk stjórnvöld brugðust. Seðlabankinn brást og Fjármálaeftirlitið brást og við sitjum í súpunni. Málið þarf að leysa. Ég hef lesið þau skjöl sem lögð hafa verið fyrir þjóðina og leyniskjölin sem alþingismenn einir fá að lesa. Mér er ljóst að samningsstaða Íslands var og er hörmuleg en við getum ekki borgað þetta. Það er svo einfalt. Icesave mun keyra landið í þrot.

Ef mér bæri siðferðisleg skylda af einhverjum orsökum að synda til Færeyja, ætti ég þá að reyna? Ég er ágætur sundmaður og kæmist sennilega eitthvað áleiðis. Ég kæmist samt aldrei alla leið og mundi drukkna á leiðinni. Væri þá siðferðislega rangt að fara ekki í sjóinn? Kannski. En það væri óðs manns æði að reyna. Það sama á við um skuldir Íslands. Við getum ekki borgað. Við verðum að semja um heildarpakkann við lánardrottna okkar og við verðum að fara með stjórn okkar ríkisfjármála sjálf. Það gengur ekki að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn stjórni ríkisfjármálum okkar Íslendinga. Það er okkar hlutverk.

Ég er hér með bréf sem ég fékk áframsent í fyrradag. Það er frá hollenskum Icesave-innstæðueiganda sem fer fyrir hópi innstæðueigenda sem átti yfir 100 þúsund evrur og tapar því peningum. Þessi hópur hefur leitað eftir fundi hjá hollenska fjármálaráðuneytinu og hollensku samninganefndinni því hollenskum innstæðueigendum finnst samningurinn ekki ásættanlegur fyrir Ísland. Með leyfi forseta, langar mig að vitna í bréfið:

„Just like you, we are wondering if the terms, that are discussed between Iceland and the Netherlands, are fair. Furthermore we think that a deal …“ (Forseti hringir.) Má þetta ekki?

(Forseti (ÞBack): Forseti vill áminna hv. þingmann um að lesa á íslensku, þýða þetta eða snara þessu.)

Ég snara þessu þá. Hér segir sem sagt að hollenskir innstæðueigendur velti fyrir sér alveg eins og við að samningarnir milli Íslands og Hollands séu ekki sanngjarnir og að leysa þurfi málið á öðrum nótum. Þeir telja að hægt sé að finna lausn á þessu sem sé ásættanleg fyrir Ísland og alla innstæðueigendur í Hollandi. Við eigum okkur bandamenn í Evrópu eftir allt saman.

Hér á Alþingi hef ég orðið vör við undarlegt hjarðeðli þar sem fólk tekur ákvarðanir um mikilvæg mál út frá flokkslínum en ekki eigin sannfæringu. Ég held jafnvel að margir treysti á félaga sína til að taka ákvörðun jafnvel í mikilvægum málum. Nú fjöllum við um eitt stærsta mál Íslandssögunnar og mig langar, frú forseti, að hvetja hv. þingmenn allra flokka til að kynna sér málin á eigin forsendum en gleypa ekki við fullyrðingum og hræðsluáróðri embættismanna, hæstv. ráðherra eða samflokksmanna sinna án þess að skoða málin ofan í kjölinn á eigin spýtur. Okkur þingmönnum ber ávallt skylda til að taka upplýsta ákvörðun á eigin forsendum.

Í vor tóku sæti á Alþingi 27 nýir hv. þingmenn. Mig langar að biðja þá að skoða hug sinn gaumgæfilega og spyrja sig að því hvort landið okkar og þjóðin eigi ekki betra skilið en þennan þrælasamning.