137. löggjafarþing — 33. fundur,  2. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[16:52]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Þessa dagana byrja ræður gjarnan á því að flytjanda sé lítil gleði í þeim boðskap sem hann eða hún hefur að flytja. Mér er eins farið. Ekkert okkar hefði kosið að þurfa að taka þær ákvarðanir sem við gerum þessa dagana. Þegar við buðum okkur fram til opinberra starfa í vor vissum við hins vegar að okkar biði síður en svo létt verkefni þannig að nú er ekki um annað að ræða en að standa í lappirnar og gera það sem við teljum réttast og best í afleitri stöðu. Ég frábið mér það að þó ég taki aðra ákvörðun en aðrir hv. þingmenn í þingsalnum þá geri ég það af hjarðeðli eða einhverjum slíkum einkennilegum hvötum. Ég tek þær ákvarðanir sem ég tek hér eftir minni bestu samvisku.

Líklegast er Icesave-málið það ömurlegasta af öllum þeim ömurleika sem fylgt hefur bankahruninu. Hins vegar eigum við ekki annars úrkosta en horfast í augu við það. Staðan er einfaldlega sú að umheimurinn krefst þess að staðin verði skil á lágmarkstryggingu sparifjáreigenda. Við erum ekki að tala um áhættufé. Við erum ekki að tala um einhverja stóra fjárfesta. Við erum að tala um sparifjáreigendur. Það eru 20.887 evrur á innlánsreikning. Meira en 340 þúsund innlánsreikningar höfðu verið stofnaðir í Hollandi og Bretlandi þegar í ljós kom að þeir voru svívirðileg aðferð óprúttinna manna sem kölluðu sig bankamenn til að afla fjár. Enginn vildi lána þeim þá fjármuni sem þurfti til að halda svikamyllunni áfram og þá fundu þeir þessa leið. Það er engin spurning að allt heiðarlegt fólk hefur megnustu skömm á þessum vinnubrögðum. Við þetta bættist svo að opinberar stofnanir sem áttu að hafa eftirlit og koma í veg fyrir að svona hlutir gerðust stóðu sig ekki í stykkinu.

Virðulegi forseti. Kannski hefur viljaleysi til að horfast í augu við staðreyndir verið okkur dýrkeypt undanfarið. Í ljós hefur komið að strax snemma árs árið 2008 var ráðamönnum kunnugt um að í óefni stefndi. Þeir gerðu hins vegar ekkert róttækt til að sporna gegn því (Gripið fram í.) og trúðu því væntanlega að einhvern veginn mundi rætast úr öllum þessum vandræðum. Það gerðist ekki og bankarnir hrundu og allt efnahagskerfið með þeim. Þá neituðu menn, að minnsta kosti opinberlega, að horfast í augu við kröfurnar sem gerðar voru á hendur okkar vegna Icesave. En þær hurfu ekki frekar en vandræðin sem blöstu við í upphafi árs 2008. Vandræði hverfa nefnilega ekki þó kona geri allt sem í hennar valdi stendur til að loka augunum fyrir þeim.

Af greinargerð sem fylgir frumvarpi þessu um ríkisábyrgð er ljóst að allar leiðir hafa verið reyndar í viðræðum við umheiminn til að losa íslenska skattgreiðendur undan þessum skuldbindingum. Þessar leiðir hafa hins vegar allar reynst ófærar og við eigum ekki annars úrkosta en að horfast í augu við það. Við verðum að horfast í augu við að bankastarfsemi á að fylgja ákveðnum reglum og það er ríkisvaldsins að sjá til þess að starfað sé samkvæmt þeim reglum. Þess vegna ber ríkisvaldið hina endanlegu ábyrgð gagnvart sparifjáreigendum ef illa fer.

Í þessu sambandi breytir engu hvort starfsemin er í einkaeigu eða eigu ríkisins. Landlæknir ber ábyrgð á gæðum heilbrigðisþjónustu hvort heldur hún er rekin á einkastofum eða á stofnunum ríkisins. Hið sama á við um Fjármálaeftirlitið og Seðlabankann. Þessar stofnanir bera ábyrgð á að bankar fari að þeim reglum sem starfseminni eru settar hvort heldur bankarnir eru í einkaeigu eða eigu ríkisins.

Þann 5. desember síðastliðinn var eftirfarandi samþykkt á Alþingi, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að leiða til lykta samninga við viðeigandi stjórnvöld vegna innstæðna í útibúum íslenskra viðskiptabanka á Evrópska efnahagssvæðinu á grundvelli þeirra sameiginlegu viðmiða sem aðilar hafa komið sér saman um.“

Hver voru þessi viðmið? Í fyrsta lagi þau að Íslendingar ábyrgðust lágmarkstrygginguna og í öðru lagi að í slíkum samningum yrði tekið tillit til, með leyfi forseta, „hinna erfiðu og fordæmislausu aðstæðna sem Ísland er í og knýjandi nauðsynjar þess að ákveða ráðstafanir sem gera Íslandi kleift að endurreisa fjármála- og efnahagskerfi sitt“. Þetta eru hin sameiginlegu viðmið.

Það var á þessu sem samninganefndin fór og kom heim með þann samning sem við nú stöndum frammi fyrir. Það er tvennt í þeim samningi sem ég horfi fyrst og fremst til. Í fyrsta lagi er svo að það gefast grið í sjö ár til að reyna að vinna að þessu erfiða verkefni (Gripið fram í.) og í öðru lagi er ákvæði um að taka megi samninginn upp ef greiðsluþol þjóðarinnar þolir hann ekki. Ég vona svo sannarlega að ekki komi til þess, í fyrsta lagi vegna þess að það fáist svo mikið fyrir eignir Landsbankans að greiðslubyrðin verði ekki yfirþyrmandi og í öðru lagi að okkur hafi tekist á þessum sjö árum að vinna okkur þannig út úr þessum þrengingum að við getum staðið undir skuldbindingunum.

Virðulegi forseti. Í Morgunblaðinu á sunnudaginn var, 28. júní, skrifaði Vésteinn Ólason fyrrverandi forstöðumaður Árnastofnunar grein undir fyrirsögninni Íslands óhamingja. Þar orðaði hann hugsanir mínar mjög vel. Ég ætla ekki að lesa greinina alla en leyfi mér að vitna í hana, með leyfi forseta:

„Við þurfum á stuðningi og velvild að halda, samvinnu við aðrar þjóðir. … Hörmulegt er til þess að vita ef þingmenn í stjórnarandstöðu, sem hefðu hiklaust greitt atkvæði með þessum samningi ef þeir hefðu verið í stjórn, ætla nú að snúast gegn honum af pólitískum þvergirðingshætti. Rétt eins og það er hörmulegt ef einhverjir þingmenn Vinstri grænna sitja svo fastir í einangrunarhyggju sinni að þeir geti ekki greitt atkvæði með Icesave-samningunum.“

Virðulegi forseti. Að lokum vil ég óska þess að rannsókn á þeim atburðum sem leiddu til þess að þessi ósköp dundu yfir okkur muni leiða til þess að þeir sem ábyrgir eru fyrir þeim fái makleg málagjöld.