137. löggjafarþing — 33. fundur,  2. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[17:04]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Það er mjög einfalt að skuldsetji einhver sig, fyrirtæki eða ríki, svo gríðarlega að allir mega sjá að það muni leiða til töluverðra vandræða og líklega verða ríkinu eða þeim sem tekur lánið ofviða þá hefur það strax áhrif. Það hefur strax áhrif rétt eins og ég nefndi áðan að bankarnir lentu í vandræðum þrátt fyrir að þeir ættu strangt til tekið ekki að þurfa að endurfjármagna sig fyrr en síðar.

Það mætti líkja þessu við það að íslenska hagkerfið væri verksmiðja sem samanstæði af mörgum byggingum. Hefði það ekki áhrif á verðmæti verksmiðjunnar ef sú kvöð fylgdi að að 7 árum liðnum ætti að byrja að rífa hana, kannski eitt hús á ári eða svo? Hefði það ekki áhrif á verðmæti verksmiðjunnar? Ég tala nú ekki um þegar verksmiðjan er í þeirri stöðu að það þarf að fjárfesta í henni. Það þarf ný tæki, það þarf að koma henni aftur í gang. En af því að það eru 7 ár í að farið verði að brjóta niður verksmiðjuna þá skiptir það ekki máli. Þetta er algerlega fráleitur málflutningur en engu að síður í samræmi við alla stefnu ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum, þá trú að hægt sé að fresta vandanum og með því að fresta vandanum þá verði hugsanlega allt í lagi einhvern tíma síðar því að hlutirnir muni lagast það mikið af sjálfu sér að þegar fram líða stundir verði allt svo miklu betra og þá getum við staðið undir því sem frestað var og vöxtunum af því. Þannig virkar þetta ekki. Það ættum við að hafa lært af bankahruninu. Við skulum ekki láta þjóðina fara sömu leið og bankana.