137. löggjafarþing — 33. fundur,  2. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[17:08]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Virðulegi forseti. Umræðan sem hefur átt sér stað í dag hefur á margan hátt verið mjög merkileg. Hér er verið að ræða, eins og hefur komið fram í máli margra hv. þingmanna, gríðarlega stóra fjárhagslega skuldbindingu sem kann að falla á þegna þessa lands, mörg hundruð milljarðar kr. og ef maður dregur umræðuna saman í eins fáum orðum og maður mögulega getur snýst hún að stærstum hluta, samkvæmt þeim sem leggja málið fram, um það að við höfum ekkert val, Íslendingar hafi ekkert val. Engu að síður held ég að í dag hafi ég hvorki heyrt einn einasta hv. þingmann né hæstv. ráðherra halda því fram að hann hefði viljað fjalla um þetta mál í dag, þ.e. vera með þetta samkomulag í höndum. Því er haldið fram að enginn vilji gera þennan samning, menn geti bara ekki annað, Ísland hafi ekkert val. Út frá þeirri hugsun minni og þessari samantekt kemst ég að þeirri niðurstöðu að ekki sé um neitt samkomulag að ræða í málinu. Ef staðan er með þeim hætti að enginn sem tekur til máls kærir sig yfir höfuð um að gera þennan samning þá getur þetta ekki verið samkomulag, þá er það ánauð, þá er verið að hneppa þjóðina í fjötra og við erum neydd til og neyðumst til að gera þetta. Ef þetta verður með þeim hætti að stjórnarmeirihlutinn eða ríkisstjórnin eða hæstv. fjármálaráðherra sem leggur þetta fram hefur það í gegnum Alþingi þá kemur það í hlut Alþingis að leggja þessa ánauð, þessa kvöð á alla Íslendinga og komandi kynslóðir að standa undir því dæmi sem hér er uppi á borðum. En það gerist þá ekki fyrr en Alþingi — það er alveg sama hvað núverandi ríkisstjórn eða fyrrverandi hefur sagt eða gert í þessu máli, ríkisábyrgðin er mál, sem þarf staðfestingar Alþingis við. Við munum þá leiða yfir hinn almenna borgara byrðar vegna ófara einhverra einstaklinga eða einkafyrirtækis á erlendri grundu, en því hefur hins vegar ekki verið svarað enn þá með nægilega sterkum rökum að mínu mati við þessa umræðu hvaða lögfræðilegu röksemdir liggi til grundvallar þeim niðurstöðum sem samninganefndin komst að og ríkisstjórnin hefur kosið að gera að sínum.

Ég er ekki með þessum orðum mínum á neinn hátt að gera lítið úr starfi samninganefndarinnar. Ég dreg ekki í efa að allir í henni hafi viljað gera og leggja allt sitt af mörkum til að þetta næði fram að ganga. Ekki hefur verið gerð viðhlítandi grein fyrir því hvers vegna málum er ekki stillt þannig upp að Bretum og Hollendingum sé gert að sækja rétt sinn til greiðslu frá Íslendingum fyrir dómstólum. Það er ekki eins og Íslendingar eigi að krefjast þess fyrir dómstólum að fá að greiða þessum þjóðum eitthvað, ef þær telja sig eiga kröfu á Íslendinga eiga þær að fara með mál sín fyrir dóm. Á meðan þessu er ósvarað eru þingmenn í jafnmikilli óvissu og aðrir landsmenn hvernig og á hverju við eigum að byggja afstöðu okkar á meðan þessar röksemdir koma ekki fram. Það er ekkert óeðlilegt við það þó að almennir launamenn hér á landi reki upp ramakvein og spyrji hvers vegna í ósköpunum þeir eigi að taka á sig byrðar af skuldum fólks, örfárra einstaklinga sem almennir launþegar hafa ekki séð nema á myndum, aldrei umgengist. Þetta fólk hefur að auki, eins og komið hefur fram í umræðum, verið svo smekklaust að það lét taka af sér myndir við að slafra í sig gullhúðað grænmeti og hænur. Er einhver furða þó að almennur launþegi í þessu landi sem stendur frammi fyrir því að þurfa að taka á sig skuldbindingar vegna þessa reki upp ramakvein? Ég tel að almenningur eigi skýra kröfu á því að vita hvers vegna í ósköpunum var ekki og er ekki látið reyna á það af fullri hörku hvort þessar svokölluðu eignir, sem sumir kalla drasl Landsbankans í Bretlandi og Hollandi, séu einhvers virði með því að láta Breta og Hollendinga hirða þetta. Nei, þess í stað er veðjað á eilífan uppgang í nánustu framtíð. Sumir hafa nefnt 15 ár í það minnsta en það er nákvæmlega sami háttur og við höfðum á sl. 6 ár og dreif áfram loftbóluna og loftbelginn sennilega. Þetta er orðið stærra heldur en bóla íslensku skuldakónganna. Í báðum tilfellunum á síðan að fara í vasa þess almennings sem hér um ræðir og stendur eftir með stór augu.

Jafnframt sú firra sem hér hefur verið nefnd, hvers vegna í ósköpunum ekki sé unnt að láta reyna á dómstólana og réttlætið í þessum heimi. Hvers vegna er það allt í einu orðið svo að vinstri menn af öllum mönnum vilja ekki láta á það reyna? Hvaðan kemur þetta háttalag? Og þegar maður ber þessi sjónarmið fram í umræðunni, þá er viðkvæðið frá stjórnarliðunum, sérstaklega tilteknum hv. þingmönnum frá Samfylkingunni, að sjálfstæðismenn séu að hlaupa frá verkum sínum. Hæstu ásakanirnar í þeim efnum hafa komið frá tveimur hæstv. ráðherrum, hæstv. utanríkisráðherra og félagsmálaráðherra, í umræðunni fyrr í dag. Þegar slíkar ásakanir eru bornar fram verðum við að hafa í huga — og það er rík ástæða til að minna á það — að ríkisábyrgð dettur ekki niður úr loftinu. Hún verður ekki til úr engu. Til að hún verði til þarf afdráttarlausa lagaheimild sem ekki er fyrir hendi í dag vegna innstæðu sjóðsins. Það er ómálefnalegt að halda því fram að alþingismenn hvar svo sem í flokki þeir standa hafi á fyrri stigum þessa máls gefið fyrirheit um stuðning sinn við ríkisábyrgð og undirgengist hana án þess að vita hvað í slíkri ábyrgð fælist.

Minnt hefur verið á samþykkt þingsályktunartillögu á Alþingi þann 5. desember í vetur og sá sem hér stendur ljáði þeirri afgreiðslu samþykki sitt. Með þeirri samþykkt — og það vil ég undirstrika mjög skýrt — heimilaði ég ekki ríkisstjórn Íslands að semja um hvað sem var. Ég áskildi mér fullan rétt til þess að taka sjálfstæða ákvörðun á hinu háa Alþingi þegar málið kæmi fyrir í samningi og mynda mér mína eigin skoðun á því og tel mig ekki á neinn hátt vera að hlaupast undan merkjum með þeim hætti að hafa ekki bundið mig á þann klafa í desemberbyrjun á síðasta ári að skuldbinda mig gagnvart afgreiðslu á máli sem kæmi fram einhvern tíma síðar á árinu.

Ég vil undirstrika það líka í þessari umræðu að ég tel Sjálfstæðisflokkinn að sjálfsögðu bera mikla ábyrgð í þessu máli og það er ekki á nokkurn hátt hægt að undanskilja hann þeirri ábyrgð í þeirri umræðu sem á sér stað um þessi mál. En flokkurinn tekur ekki af mér ábyrgð mína, skyldu eða rétt til þess að mynda mér sjálfstæða skoðun. Því miður hefur þessi umræða farið töluvert í þessar skotgrafir og eitthvert besta innleggið sem ég hef heyrt í þessari umræðu í dag kom frá hæstv. heilbrigðisráðherra Ögmundi Jónassyni þar sem hann varaði við því að málið færi í þann farveg, sem honum greinilega heyrðist hæstv. ráðherrar Samfylkingarinnar vera að reka það, í hefðbundinn pólitískan skotgrafarhernað. Ég tek heils hugar undir þau orð hæstv. heilbrigðisráðherra þar sem hann lagði til að menn reyndu að forðast sem mest þeir gætu persónulegt hnútukast en engu að síður vakti hann athygli á því að hér er tiltölulega knappur meiri hluti sem hefur talað með þessu máli og ég er þeirrar skoðunar að það sé ábyrgðarleysi af Alþingi Íslendinga að samþykkja mál sem þetta með einhverjum naumum þingmeirihluta. Það sitja 63 þingmenn á hinu háa Alþingi og ég teldi það firru og mikið glapræði að leggja þær byrðar á þjóðina sem til stendur að gera með samþykki 32 einstaklinga af þeim hópi sem hér er og þess vegna tek ég heils hugar undir þá áskorun sem kom fram hjá hæstv. heilbrigðisráðherra og er tilbúinn til að leggja mitt af mörkum til að skapa breiða samstöðu um afgreiðslu á málinu.

Því miður hefur umræðan lítið beinst að því hver hin raunverulega staða er. Það hefur verið talað um að mikil óvissa taki við ef samningurinn er ekki staðfestur. Eini þingmaðurinn sem hefur játað að telja það meiri óvissu að fella samninginn heldur en ekki er hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir sem talaði síðast og viðurkenndi það, en óvissan er að mínu mati meiri við það að staðfesta þennan samning heldur en fella hann, einfaldlega vegna þeirra mála sem við stöndum frammi fyrir og ef maður leggur þetta niður fyrir sér og horfir til þess með hvaða hætti efnahagsmálum er komið í dag og að fjárhagsstaða ríkisins er með þeim hætti að ekki er leggjandi á nokkurn mann að taka endanlega afstöðu til málsins öðruvísi en að fara mjög ítarlega í gegnum það.

Því til stuðnings vil ég nefna það að erlendar skuldir annarra en bankanna hér á landi, sem stundum eru kallaðar gleymdu skuldirnar, gleymdu erlendu lánin sem lítið er rætt um voru í árslok ársins 2008 tæpir 2.300 milljarðar, höfðu þá aukist frá árinu 2004 úr 443, aukist um tæpa 2.000 milljarða kr. Um þessar skuldir er sjaldan eða lítið rætt. Hvers vegna er ég að nefna þetta? Það er vegna þess að við verðum að greiða bæði vexti og afborganir af þeim skuldum og þessar skuldir eiga: Seðlabankinn sjálfur 371 milljarð, ríki og sveitarfélög 530–540 milljarða, aðrir geirar tæpa 1.140 milljarða og bein fjárfesting er nefnd tæpir 250 milljarðar. Þessar tölur eru á heimasíðu Seðlabankans. Samtals eru þetta, eins og ég sagði, rúmir 2.000 milljarðar kr. Ef við reiknum með að vextir af þessu væru svona 3,5% þá eru vextir af þessum skuldum gríðarlega háar fjárhæðir og svo háar að mann sundlar þegar maður horfir til þess, en stabbinn sem við höfum til að greiða þetta niður með eru útflutningstekjur þjóðarinnar. Á árinu 2008 voru útflutningstekjur þjóðarinnar 467 milljarðar kr. Þeir ættu að duga mjög vel fyrir vöxtum og afborgunum af þessu ef þær væru ekki nýttar í annað, en innflutningur tók til sín af þessum útflutningstekjum 472 milljarða, þ.e. innflutningurinn var 5 milljörðum hærri. Við greiddum ekki krónu hvorki í vexti né afborganir. Við höfum aukið erlendar skuldir okkar á undanförnum árum. Þessir 2.300 milljarðar kr. eru hins vegar stærð sem mun vaxa við lántökuna hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum sem verður 650 milljarðar að lágmarki og vegna Icesave um aðra 650 milljarða, þ.e. þarna koma 1.300 milljarðar nýir inn og þá erum við komin með erlendar skuldir upp á 3.500 milljarða kr. sem við komumst ekki hjá því að greiða. Bara vextir af þeim nema um 100 milljörðum kr. Við verðum þá að bíta af þeim takmarkaða gjaldeyrisforða sem við eigum eftir þegar við höfum tekið fyrir innflutningnum við aðra sem þurfa að greiða af sínum erlendu skuldum. Svo halda menn því fram að gengið á krónunni eigi eftir að styrkjast á næstu árum. Allir eru að keppa um það litla sem eftir verður. Þetta eru stærðir sem menn verða að leggja niður fyrir sér og fara mjög ítarlega í gegnum áður en við tökum afstöðu til samningsins sem hér liggur fyrir og þetta snýst um það sem hér hefur komið fram í morgun og umræðunum í dag um að við þurfum að gera okkur grein fyrir því hver greiðslubyrði ríkissjóðs og þjóðfélagsins alls er og hver greiðslugetan er. Þetta eru stærðir sem verður að leiða fram áður en við getum gefið endanlegt svar við þessu.

Það sem ég vil segja að lokum, virðulegi forseti, er það að eins og þetta samkomulag, sem ég vil kalla ánauð, liggur fyrir og er kynnt, þá er það ígildi 7 ára kúluláns, þ.e. það er afborgunarlaust í 7 ár. Við skulum hafa það í huga að sú stofnun sem tekur í gikkinn fyrir þessa kúlu er Alþingi Íslendinga. Þeir sem mæta þessari kúlu eftir 7 ár er almenningur á Íslandi og það er lágmarkskrafa að við gerum þeim sama almenningi fullkomlega grein fyrir því, eins vel og við getum, (Forseti hringir.) frammi fyrir hverju hann stendur eftir 7 ár þegar þetta fer tikka inn.