137. löggjafarþing — 33. fundur,  2. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[17:44]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu. Þó fannst mér gæta ákveðinnar mótsagnar í ræðunni því að hann dásamar framgöngu Íslendinga í 200 mílna deilunni og þar fórum við einmitt ekki að alþjóðalögum og vildum ekki leggja málið undir dóm. Hv. þingmaður nefndi það einmitt. Svo kvartar hann undan því núna að Bretar vilji ekki fara að alþjóðalögum og vilji ekki leggja málið undir dóm. Í því felst dálítil mótsögn. Ég ætlaði að fá svör við því.

En ég ætlaði eiginlega að benda hv. þingmanni á nokkuð og spyrja hann hvort hann hafi ekki orðið var við það í haust að hér var eiginlega stríðsástand. Það voru stöðvaðar greiðslur frá útlöndum til Íslands. Maður sem átti evrur inni á reikningi á Ítalíu, útflytjandi, hann gat ekki náð í þær evrur. Þær komust bara ekki til Íslands. Ýmist var það að menn þorðu ekki að millifæra þær af ótta við að þær yrðu gerðar upptækar á verðbréfamarkaðnum í London eða þá að þær stöðvuðust í London. Auk þess var á sama tíma þess krafist að staðgreitt yrði fyrir innflutning. Ég ætla að spyrja hv. þingmann: Vissi hann ekki af því að áhyggjur höfðu jafnvel vaknað um hvort menn gætu keypt lyf og olíu og annað slíkt sem er þó lífsnauðsynlegt, alla vega lyfin, og olían fyrir rekstur fiskiskipaflotans og svo framvegis. Þetta var því ákveðið stríð og í stríði gerist það, þ.e. þegar menn tapa stríði, eins og Íslendingar að sjálfsögðu gerðu — og ég sagði í ræðu á sínum tíma í haust að við ættum bara að lyfta út hvíta fánanum og krefjast friðarsamninga — það sem gerist í stríði er að þá hjala menn ekkert um lög eða rétt.