137. löggjafarþing — 33. fundur,  2. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[17:51]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í máli þingmannsins komu fram fullyrðingar sem ég er einfaldlega ekki sammála. Ég tel mikilvægi Íslands á alþjóðamælikvarða mjög mikið núna hvað varðar þær auðlindir sem við búum yfir og stöðu okkar á hnettinum. Líta þjóðir heims ekki einmitt til norðursins varðandi vatn, varðandi hugsanlegar siglingar fyrir norðan Rússland og Síberíu? Er þetta ekki framtíðin? Eru ekki öll lönd að horfa einmitt á þjóðir sem eiga auðlindir eins og Ísland?

Þingmaðurinn hélt því fram að öll Evrópusambandsríki hefðu verið á móti okkur. Það er einfaldlega rangt. Það sem gerðist hins vegar var það að Bretar fóru — (Gripið fram í.) ég skal svara því, Bretar fóru og héldu uppi áróðri fyrir málstað sínum. Það gerðu Íslendingar ekki, það gerði Sjálfstæðisflokkurinn ekki og ekki Samfylkingin. Utanríkisráðherra Slóvakíu kom hér um daginn og sagði einmitt að það gæti meira en vel verið að Slóvakar hefðu aðra mynd af stöðunni á Íslandi og aðra skoðun á því en haldið hefði verið fram, þeir stæðu kannski bara með Íslendingum.

Hvað hafa Frakkar gert í þessu máli? Þeir hafa lýst því yfir að ekki sé ríkisábyrgð á bak við innstæðutryggingakerfið sitt. Þeir eru með öðrum orðum sammála túlkun Íslendinga, svo ekki sé minnst á túlkun sérfræðinga í sænska seðlabankanum sem segir ósanngjarnt að Íslendingar taki einir á sig gloppur í innstæðutryggingakerfinu.

Svo er það ekki rétt, sem hæstv. þingmaður kom inn á, að það hefði verið gert áhlaup á banka í Evrópu. Var gert áhlaup á franska banka þegar hann lýsti því yfir að það væri ekki ríkisábyrgð, varð áhlaup á franska seðlabankann, banka í Frakklandi.? (Forseti hringir.) Nei. Þessu hefur verið haldið fram af hv. þingmanni og Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur. (Forseti hringir.) Ég hef því miður ekki tíma til að svara betur en bendi á grein á heimasíðu minni þar sem ég kem nánar inn á þennan punkt.