137. löggjafarþing — 33. fundur,  2. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[17:58]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að við séum öll sammála um að okkur hefði fundist rétt og skylt og eðlilegt að við hefðum fengið einhvern réttarfarslegan dómstólafarveg til úrlausnar óvissu í þessu máli. Um það var engin deila hér á Íslandi. Það vildu bæði fyrrverandi og núverandi stjórnvöld en sú leið lokaðist. Menn sættu sig við það og kyngdu því svo snemma sem í nóvember að dómstólaleiðin væri ekki fær, að engin tæk úrræði væru til þess að knýja fram dómsúrskurð nema gagnaðilarnir féllust á að veita einhverjum dómstóli lögsögu, þetta er vandinn í hnotskurn.

Þegar Íslendingar sjálfir drógu málið út úr þeirri gerð sem til stóð að reyna á vettvangi Evrópusambandsins í nóvember og eftir ECOFIN-fundinn þá varð það ekki til að styrkja okkar málsástæður.

Síðan hvet ég hv. þingmann til að kynna sér fylgiskjölin, t.d. fskj. 17, 18, 19 og 20. Strax í nóvembermánuði voru unnar ýmsar lögfræðilegar álitsgerðir um stöðu Íslands í þessum efnum, þar á meðal fskj. 19 þar sem Stefán Geir Þórisson hæstaréttarlögmaður vann álit fyrir þáverandi ríkisstjórn og hver er meginniðurstaða hans? Jú, hana er hér að finna.

Sagt er, með leyfi forseta:

„Það er því skoðun mín að ef tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta eiga ekki fé til að greiða samanlögð innlán hvers innstæðueiganda Icesave-reikninganna í Bretlandi og Hollandi upp að lágmarkinu í 1. mgr. 7. gr. tilskipunarinnar, þ.e. rúmar 20 þúsund evrur, og til hvers og eins, sé íslenska ríkið skaðabótaskylt gagnvart hverjum og einum þeirra þannig að íslenska ríkið þurfi að standa skil á því sem upp á vantar að lágmarkinu verði náð.“

Þetta lögfræðiálit var fyrrverandi ríkisstjórn með í höndunum strax í nóvember og mörg önnur. Það verður því að segja það eins og er, án þess að ég vilji með tilvitnunum veikja þó það sem eftir kann að standa af einhverri mögulegri málsástæðu okkar að lögum í þessu, að það eru líka gögn hér sem styrkja ekki stöðu okkur. (Forseti hringir.) Að líkindum er það svo að eina leiðin sem mögulega er eftir opin er málsmeðferð fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu.