137. löggjafarþing — 33. fundur,  2. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[18:00]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka málefnaleg svör frá hæstv. fjármálaráðherra. Hann telur að dómstólaleiðin hafi lokast. Ef ég man rétt fullyrti hæstv. fjármálaráðherra hér fyrr í dag að við hefðum þegar verið búin að skrifa undir samningana í haust. Ég er búinn að fara yfir það með rökum að það standist ekki, það stenst einfaldlega ekki hvernig sem við reynum að snúa málinu við.

Ég er líka ósammála því að dómstólaleiðin sé ekki fær. Ég er ósammála því. Að sjálfsögðu hljótum við enn þá að eiga þann rétt fullvalda ríkis að láta reyna á. Lögfræðingar eru ósammála um hvernig eigi að túlka tilskipunina um innstæðureikningana. Gott og vel, en er þá einmitt ekki tilefni til þess að fá úr því skorið hver staðan er? Þegar maður semur við einhvern aðila sem krefst þess að maður borgi, bara venjulegur kröfuréttur sem er mjög sambærilegur í öllum vestrænum ríkjum, er það aðilans sem vill fá kröfuna, vill að maður greiði, að fara dómstólaleiðina. Ég hafna því algjörlega að við getum ekki farið dómstólaleiðina af því að Bretar hafa sagt nei. Ef Bretar vilja ekki fara dómstólaleiðina segjum við bara á móti: Þá viljum við ekki borga þar sem við teljum okkur ekki bera að borga. Þannig er staðan. Ég hef kynnt mér öll fylgiskjölin i þessu lokaða herbergi og mér finnst það grafalvarlegt mál ef ríkisstjórnin heldur leyndum einhverjum gögnum sem koma þeim illa í þessari umræðu, (Forseti hringir.) hvað þá áliti frá breskri lögmannsstofu (Forseti hringir.) sem fjallar um að hún hefði átt að fara allt aðra leið en hún fór.