137. löggjafarþing — 33. fundur,  2. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[18:23]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hér erum við, ég og hv. þingmaður, enn sammála. Það er óréttlátt og ósanngjarnt að þetta skuli þurfa að fara svona. Við skulum heldur ekki nálgast þetta eins og að við berum enga ábyrgð á því. Veruleikinn er nefnilega sá að gallað regluverk fríar ekki stjórnvöld og eftirlitsaðila ábyrgð. Menn áttu að geta séð að það var að skapast mjög hættuleg staða og menn höfðu ærinn tíma til að bregðast þar við en gerðu það ekki, því miður. Þar hvílir mikil ábyrgð á okkur sjálfum, stjórnvöldum okkar og eftirlitsstofnunum.

Hv. þingmaður nefndi í fyrra máli sínu Evrópudómstólinn og ég hef sagt það fyrr hér í dag að kannski sé það eini réttarfarslegi farvegurinn sem að einhverju leyti standi enn eftir opinn í þessu máli. Það mun væntanlega fela í sér mjög takmarkaða möguleika á því að sækja bætur eða ná rétti okkar í efnahagslegum skilningi, en það gæti auðvitað orðið liður í því að endurreisa orðstír okkar og fá viðurkenningu á því hversu harkalega var farið með okkur. Eini staðurinn þar sem mál Íslands hefur enn komist af stað í skoðun er á vettvangi Evrópuráðsþingsins fyrir tilstyrk Íslandsdeildarinnar þar á haustmánuðum. Það verður sama marki brennt, við fáum þar skýrslu, mögulega í framhaldinu einhverja ályktun sem verður eingöngu gagnleg í þeim skilningi að við fáum að einhverju leyti rétt hlut okkar hvað orðstír og málstað snertir.

Að lokum nefndi hv. þingmaður endurskoðunarákvæði samningsins. Það er mikilvægt, það er hárrétt, að rýna í samhengi þess og gott að hv. fjárlaganefnd fari rækilega ofan í það. Það er skilningur okkar eins og fram kemur að það sé í beinum tengslum við hin sameiginlegu viðmið, bæði þau sem tala um hið mikla áfall Íslands og að taka skuli tillit til þess og það sem segir einnig þar, að markmið þessara aðgerða sé að endurreisa Ísland og koma því á kjöl í efnahagslegu tilliti á nýjan leik. Ekki gleyma því ákvæði heldur. (Forseti hringir.) Markmiðið með þessu er ekki að knésetja Ísland, heldur að hjálpa því aftur á fæturna.