137. löggjafarþing — 33. fundur,  2. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[20:07]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri H. Blöndal fyrir góða ræðu og það er rétt sem hann segir, það stefnir hér í fullkomna niðurlægingu ef stjórnin fær sitt fram. Það er líka rétt sem hv. þingmaður bendir á að illu heilli virðist þessi stjórn vera farin að apa eftir margt af því sem varð til þess að við lentum í þessum vandræðum upphaflega. Það skortir skilning á ýmsum grundvallaratriðum, til að mynda á áhrifum umframlánsfjár og eins skilning á gjaldmiðilsáhættu.

Það er rétt sem þingmaðurinn benti á áðan, þetta er allur sjávarútvegurinn, bara vextirnir af Icesave eru eins og allur þorskútflutningur okkar en vel að merkja jafngildir það því að þorskurinn hyrfi en menn væru samt með fólk í vinnu og sigldu skipunum út og köstuðu netunum í sjóinn og hefðu allan kostnaðinn en það kæmi ekkert á móti. Þetta eru áhrifin af þessum samningum.

Það er nú margt skrýtið í þessu en í samhengi við gengið er eitt alveg sérstaklega galið, þetta er rökstutt með þeim hætti að við verðum að taka á okkur þessar skuldbindingar vegna þess að ella eigum við á hættu að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn láni okkur ekki pening. Hvað ætlum við að gera við þessa peninga frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum? Jú, það á að nota þá til þess að halda uppi gengi íslensku krónunnar, verja gengi krónunnar. Á meðan er deginum ljósara að þessar gríðarlegu skuldbindingar umfram það sem við ráðum við með Icesave-láninu mun fella gengi krónunnar og halda því veiku í 15 eða 20 ár. Það væri fróðlegt að heyra hv. þingmann útskýra, ef hann treystir sér til, hvernig þessi rökstuðningur stjórnarinnar birtist honum og hver hann telur að áhrifin af þessu öllu saman verði til lengri tíma litið á gengi gjaldmiðilsins sem skiptir svo miklum máli fyrir íslensk fyrirtæki og íslensk heimili og að sjálfsögðu íslenska ríkið.