137. löggjafarþing — 33. fundur,  2. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[20:11]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Jú, ég get tekið undir það sem hv. þingmaður sagði en eitt mundi ég vilja spyrja hann nánar út í og það tengist því sem hæstv. viðskiptaráðherra hefur átt í dálitlu basli með síðustu daga. Ég hef margsinnis reynt að útskýra fyrir hæstv. viðskiptaráðherra að allar þær tekjur sem við höfum af útflutningi séu ekki til ráðstöfunar vegna þess að við þurfum jú að kaupa ýmsar afurðir frá útlöndum og margt af því er nauðsynlegt bara til að halda þjóðfélaginu gangandi og til þess að skapa þessar útflutningstekjur. Jafnframt erum við búin að skuldsetja okkur svo gríðarlega, sveitarfélög, ríkið og fyrirtæki, og að miklu leyti í erlendri mynt. Mikið af þessum útflutningstekjum rennur strax til baka í vaxtagreiðslur og afborganir af erlendum lánum. Svigrúmið er því mjög lítið, kannski er það ekki neitt, ég hugsa reyndar því miður að það sé neikvætt. En gefum okkur að svigrúmið sé lítið, þá má ekkert út af bera og þegar við ráðstöfum svona gríðarlega miklum gjaldeyri og fáum ekkert í staðinn tel ég það óhjákvæmilegt að það veiki gengið.

Ég spyr því hv. þm. Pétur H. Blöndal: Treystir þingmaðurinn sér til þess að aðstoða mig við það sem mér hefur ekki tekist síðustu daga, að útskýra fyrir hæstv. viðskiptaráðherra og ríkisstjórninni hvers vegna áhrifin eru þessi, hvers vegna það þýðir ekki að líta bara á útflutningstekjurnar?