137. löggjafarþing — 33. fundur,  2. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[20:35]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Árni Johnsen nefndi hér Færeyinga. Færeyingar lánuðu okkur peninga. Hverjir voru vextirnir á því láni, voru þeir ekki núll prósent? Svo leyfir ríkisstjórnin sér að halda því fram að 5,6% vextir á nauðungarláninu frá Bretum og Hollendingum séu eðlilegir vextir vegna þess að á markaði væri erfitt að fá hagstæðari vexti á þessa tegund láns á meðan Færeyingar lána okkur á 0% vöxtum. Hvað finnst þingmanninum um þann samanburð ríkisstjórnarinnar að telja einhverja markaðsvexti forsvaranlega á þessum nauðungarsamningum?

Það er alveg rétt sem hv. þingmaður segir, ég held að Evrópusambandsáhugi Samfylkingarinnar hafi mikið með afstöðu þeirra að gera í þessu máli. En það er rétt að geta þess að margir mjög harðir Evrópusinnar eru eindregnir andstæðingar Icesave-samkomulagsins vegna þess að þeir hafa reiknað dæmið til enda og sjá að það er ekkert betra fyrir okkur að ætla að reyna að komast inn í Evrópusambandið sem gjaldþrota þjóð. Það er ekkert betra að fara þar inn í þeirri stöðu að geta ekki í rauninni verið virkir þátttakendur þar, að geta ekki einu sinni tekið upp evruna, eins og virðast vera helstu rök flestra sem tala fyrir því að það liggi á Evrópusambandsaðild. Mjög margir hafa því áttað sig á því, meðal annarra talsmaður sammala.is, Eiríkur Bergmann Einarsson, einn helsti Evrópusambandsfræðingur þjóðarinnar, Herdís Þorgeirsdóttir. Mjög margir af þeim Íslendingum sem hvað fróðastir eru um Evrópusambandið hafa einmitt bent á hættuna við að samþykkja Icesave-samkomulagið þannig að bæði andstæðingar og fylgjendur Evrópusambandsins ættu að hafna þessu.