137. löggjafarþing — 33. fundur,  2. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[20:40]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Í ljósi þess sem hv. þm. Árni Johnsen segir um Evrópusambandið þætti mér mjög fróðlegt að heyra hvað hv. þingmanni þótti um málflutning sendiherra Evrópusambandsins hér á þingi, hæstv. félagsmálaráðherra, fyrr í dag þar sem hæstv. félagsmálaráðherra hélt nánast eingöngu fram rökum Hollendinga og Breta, þeirra sem hafa verið að beita okkur svo miklu ofbeldi hér í dag. Meira að segja gekk hæstv. sendiherra Evrópusambandsins, sem ég tel reyndar að ætti að vera á launum hjá Evrópusambandinu mun frekar en íslenska ríkinu, svo langt að segja að rök okkar Íslendinga í málinu væru afskaplega veik lagaleg rök. Hann gerði lítið úr þeim fræðimönnum, íslenskum og erlendum, sem hafa haldið þeim fram á meðan hann lofaði í hástert einhvern starfsmann Evrópusambandsins í Brussel sem hafði hallmælt þessum rökum og haft eitthvað annað fram að færa.

Hvað finnst hv. þingmanni um svona málflutning á Alþingi Íslendinga? Er þetta eitthvað sem við eigum bara að sætta okkur við, að ráðherrar í ríkisstjórn Íslands komi fram með þessum hætti, tali máli þeirra sem hafa verið að kúga okkur Íslendinga og geri lítið úr stöðu íslensku þjóðarinnar og Íslendingum?