137. löggjafarþing — 33. fundur,  2. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[20:43]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég vil beina því til hæstv. forseta — í ljósi þess að annar stjórnarflokkurinn, Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur ágæta viðveru í þessum sal — að hún hlutist til um að fulltrúar Samfylkingarinnar verði hér við þessa umræðu og boði a.m.k. formann fjárlaganefndar hingað eða hæstv. forsætisráðherra sem er oddviti þessarar ríkisstjórnar í máli sem er ein stærsta skuldbinding á hendur íslenskum almenningi í sögu lýðveldisins. — Að Samfylkingin skuli ekki sjá sóma sinn í því að vera viðstödd þessa umræðu í kvöld. Ég hvet þig, frú forseti, til þess að gera öllum þingmönnum Samfylkingarinnar grein fyrir því að hér fari fram umræða um mál sem ríkisstjórn undir þeirra forustu hefur lagt fram og það er lágmarksvirðing af hálfu Samfylkingarinnar að hún sé viðstödd þessa umræðu. Annað er skömm fyrir viðkomandi flokk.