137. löggjafarþing — 33. fundur,  2. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[20:45]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Frú forseti. Ég tek undir orð hv. þm. Birkis Jóns Jónssonar. Slæleg viðvera þingmanna Samfylkingarinnar vekur furðu og þá sérstaklega hv. þingflokksformanns sem var viðskiptaráðherra í stjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar þegar þau ósköp dundu yfir sem við ræðum nú afleiðingu af.

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp til laga um ríkisábyrgð vegna Icesave-samninganna. Við ræðum um mál sem verður sjálfsagt íslenskri þjóð eitt það erfiðasta um langan tíma ef ekki um ókomna tíð. Það byggir á tilskipun frá EES sem leidd var í lög frá 1999, það byggir á því að árið 2002 voru tveir ríkisbankar einkavæddir og það byggir á því að íslenskar eftirlitsstofnanir sinntu ekki hlutverki sínu. Menn geta verið vitrir í dag og sagt að standa hefði átt að einkavæðingu bankanna með öðrum hætti. Menn hefðu átt að standa við dreifða eignaraðild en ekki svokallaða kjölfestufjárfesta. Menn gerðu það ekki og sitja nú uppi með Icesave-samninginn vegna þess að í bönkunum voru áhættusæknir einstaklingar sem fóru langt fram úr sér og sínum. Þeir fóru langt fram úr íslenskri þjóð og drógu hana með í það fen sem við erum núna stödd í.

Eftirlitsstofnanirnar brugðust líka. Fjármálaeftirlitið á að veita starfsleyfi og hefur almennt eftirlit með því að bankastofnanir uppfylli þau skilyrði sem eru fyrir rekstri. Seðlabankinn hefur vald til að setja reglur um lausafjárstöðu lánastofnana, bindiskyldu og reglur um umfangsmikla lántöku í erlendri mynt. Var það gert, frú forseti? Stóðu þessar stofnanir sig í því eftirlitshlutverki sem þeim bar, í því umhverfi sem hér ríkti frá 2003–2007/2008? Mér er til efs að svo hafi verið. En það voru ekki eingöngu eftirlitsstofnanir á Íslandi sem brugðust á þessum tímum: Eftirlitsstofnanir og eftirlitsverkið, regluverk Evrópusambandsins og Evrópu allrar brugðust. Alþingi Íslendinga situr nú með þessa samninga í fanginu vegna þess að reglugerðarverk Evrópu allrar brást. Stóru sterku þjóðirnar í Evrópu eða litlu þjóðirnar í Evrópu ætla að láta íslenska þjóð gjalda þess til fullnustu. Það er óásættanlegt.

Það er ekki við íslenska samninganefnd eina og sér að sakast, heldur við hinar stóru þjóðir í Evrópu sem ætla að knésetja Ísland í þeim ólgusjó sem hér varð þegar bankarnir hrundu í október og menn í Evrópu allri óttuðust að fjármálakerfi þar riðaði til falls. Þeir knésettu íslenska ríkisstjórn til að gangast við tryggingarskuldbindingum sínum — vegna hvers? Jú, vegna þess að hinar stóru og sterku þjóðir í Evrópu óttuðust að vantrú skapaðist á það bankakerfi sem þar væri, áhlaup yrði gert á bankana með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Þess vegna þótti þessum ágætu þjóðum réttlætanlegt að knésetja íslenska þjóð. En það er ekki, verður ekki og mun aldrei verða fólgið réttlæti í því að íslensk þjóð þurfi að una þeim nauðungarsamningum sem nú blasa við vegna þess að Evrópuþjóðir voru ekki tilbúnar til að horfast í augu við þann vanda sem við blasti og axla ábyrgð á því sem þeim ber.

Hér hefur verið rætt um hvort lagaleg rök séu fyrir ríkisábyrgð. Mér vitanlega hefur ekkert komið fram í þessu máli hvort t.d. erlend lögfræðiálit liggi fyrir um að ríkisábyrgð eigi að vera til staðar. Íslenskar lögfræðistofur hafa hins vegar gefið álit sem segja að engin slík lagaleg rök séu fyrir ríkisábyrgð. Það hefur líka heyrst að þekkt lögfræðistofa í Bretlandi hafi boðið að koma fram með sérfræðiálit sem styddi þá skoðun að lögfræðileg rök lægju ekki fyrir ríkisábyrgð. Ef eitthvað af þessu er rétt og satt veltir maður fyrir sér hver stóð og hver stendur í vegi fyrir að slíkt álit verði fengið? Við Íslendingar, við alþingismenn á Alþingi Íslendinga hljótum að krefjast þess að lagalegur réttur okkar sé staðfestur númer eitt, tvö og þrjú. Ber okkur skylda til að bera þá ábyrgð sem á okkur er sett? Ber þessari þjóð skylda til þess einni og sér? Frú forseti. Ég tel að svo sé ekki.

Þegar breska fjármálaeftirlitið yfirtók Heritable Bank gerði það sjálfu sér líklega stóran og mikinn grikk vegna þess að í ljós kemur nú að bankinn mun líklegast endurgreiða með þeim allar þær kröfur sem að honum steðja. Við það hafa vaknað margar sértækar spurningar sérfræðinga í Bretlandi. Ef það reynist rétt, hvað ætlar íslensk ríkisstjórn þá að gera? Íslenska ríkið er eigandi Landsbankans í dag. Ætlar íslenska ríkið að stefna breska fjármálaeftirlitinu? Hvaða áhrif hefði það í Bretlandi ef slíkt kæmi upp á yfirborðið? Hvaða áhrif hefði það í Bretlandi ef í ljós kæmi að breska fjármálaráðuneytið skerti möguleika Breta sjálfra á því að eiga upp í kröfur með yfirtöku þessa ákveðna banka? Það væri fróðlegt að verða vitni að því sem þá kæmi í ljós.

Tilskipun Evrópusambandsins kann að ná til innstæðusjóða þegar flest leikur í lyndi. Hún getur vart náð yfir það hamfaratímabil sem íslensk þjóð gengur nú í gegnum og stendur frammi fyrir. Ég verð að láta í ljós aðdáun mína á hæstv. fjármálaráðherra fyrir af hve mikilli festu og trúmennsku hann sinnir því starfi sem honum hefur verið falið í þessu verki þótt ég sé honum algerlega ósammála. Framganga hans í því verki er engu að síður honum til sóma en ég ítreka að ég er honum ekki sammála. Ég spyr hæstv. fjármálaráðherra: Veit hann til þess að í tilfelli Frakka hafi þeir við sambærilega löggjöf sérstaklega tekið fram að ríkisábyrgð væri ekki fyrir hendi undir kringumstæðum eins sem og Ísland stendur frammi fyrir í dag?

Virðulegur forseti. Forustumenn ríkisstjórnarinnar ræða um samninginn sem hér liggur fyrir og kalla á forgangskröfu upp að 700 milljörðum, að við eigum forgangskröfu, en það er ekki rétt. Það eru margir aðrir aðilar sem eiga forgangskröfu og Icesave-reikningarnir og skuldbinding vegna þeirra ganga ekki fyrir. Hverjar eru eignir Landsbankans í Bretlandi? Hverjar verða eignir Landsbankans í Bretlandi þegar kemur að því að við þurfum að borga? Það veit enginn. Þetta er eins og hv. þingmenn hafa sagt: Við erum með óútfylltan tékka í erlendum gjaldeyri sem við höfum ekki undir nokkrum kringumstæðum möguleika á að greiða og við getum ekki samvisku okkar vegna lagt það á þjóðina, sem við alþingismenn tilheyrum, að hún axli þá ábyrgð.

Ég ítreka hér að ég ætla ekki undir nokkrum kringumstæðum að afsaka ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar eða þann flokk sem ég sit fyrir á þingi fyrir það umhverfi sem hann skóp sem er orsök þess sem við stöndum nú frammi fyrir. Ég ætla ekki að axla ábyrgð á gjörðum þeirra manna sem fengu bankana í hendur og fóru með þá eins og þeir gerðu. En ég ber pólitíska ábyrgð á því sem átt hefur sér stað frá því að ég kom á þing 12. maí 2007. Ég hefði eins og margur annar þingmaður getað verið betur vakandi yfir því sem var að gerast og hvernig Alþingi sem ein af eftirlitsstofnunum hefði átt að bregðast við og skoða frekar lög sem voru í gildi og virðast ekki hafa dugað. Ég ber pólitíska ábyrgð á því og ég axla hana. En ég axla ekki ábyrgð á eigendum Kaupþings, Landsbankans og Glitnis og þeirri óreiðu og óráðsíu sem þar átti sér stað og ég frábið mér að sem þingmaður Sjálfstæðisflokksins skuli ég borin þeim sökum að bera ábyrgð á því. En á umhverfinu sem flokkur minn skóp tek ég fulla ábyrgð, ekki aðgerðum annarra.

Ríkisstjórnin skuldbatt sig til á sínum tíma að ganga til viðræðna um Icesave. Við það hefur verið staðið en samningurinn sem fyrir liggur er óásættanlegur. Við munum ekki hafa nægan gjaldeyri til að greiða þá skuldbindingu sem fellur á ríkið vegna Icesave. Við gætum hugsanlega staðið við hana ef hún væri í íslenskum krónum en við munum ekki geta greitt þá skuldbindingu sem fellur á ríkið vegna Icesave í erlendum gjaldeyri. Við, hin íslenska þjóð, eigum ekki ein að axla þessa ábyrgð. Bretar og Hollendingar þurfa að axla sína ábyrgð. Það geta þær þjóðir gert þegar þær standa frammi fyrir því að Alþingi Íslendinga mun líklegast ekki samþykkja ríkisábyrgð á Icesave-reikningum. Þá geta þessar þjóðir staðið keikar, verið stórar í eiginlegri og óeiginlegri merkingu þess orðs og fallist á að endurgreiðslur okkar verði hlutfall af þjóðarframleiðslu. Við það getum við Íslendingar staðið. Við erum ekki að koma okkur undan því að axla ábyrgð en við ætlum ekki og við getum ekki staðið við þann samning sem hér liggur fyrir. Ég treysti því að fjárlaganefndarmenn fari þeim höndum um þennan samning að honum verði breytt í þá veru að við getum við unað. Samninga er alltaf hægt að taka upp vegna þess að ef sagt verður nei verður ekki pattstaða, (Forseti hringir.) við getum hafið samningagjörð að nýju.