137. löggjafarþing — 33. fundur,  2. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[21:11]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni þessar athugasemdir. Ég held að það hljóti að hafa verið tilgangur þeirrar tilskipunar sem hér var innleidd 1999 og þess regluverks Evrópusambandsins að þess væri gætt á venjulegum tímum að það væri ekki hægt að beita henni með þessum þætti þegar um slíkar hamfarir er að ræða. Það er algerlega ljóst í mínum huga og þeirri umræðu sem á sér stað innan Evrópusambandsins og í Evrópu allri að menn eru einmitt að íhuga þessa tilskipun sem við innleiddum 1999, hvert og hvernig eigi að haga henni, hvort gistiríki eigi að bera ábyrgð eða heimaríki eða hvort þessi tryggingarsjóður innstæðu eigi að vera til staðar og þá hvernig. Það er þess vegna algerlega óásættanlegt að íslensk þjóð eigi að ganga til þessara samninga og samþykkja ýtrustu kröfur í þessa veru og axla þá ábyrgð ein. Í ljósi þess, frú forseti, skora ég enn og aftur á hv. fjárlaganefnd að fara vel yfir þessa samninga með tilliti til þess sem á sér stað í Evrópu varðandi þessa tryggingarsjóði til að það verði ekki ein þjóð sem fari út úr hruninu eins og blasir við okkar íslensku þjóð.