137. löggjafarþing — 33. fundur,  2. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[21:13]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek heils hugar undir þessi orð hv. þingmanns og með leyfi forseta vil ég vitna í grein sem var í Morgunblaðinu 30. júní þar sem Jón Daníelsson skrifar:

„En ábyrgðin er ekki einvörðungu okkar. Veruleg brotalöm var á eftirlitskerfi Evrópusambandsins og fjármálaeftirlit Bretlands og hollenski seðlabankinn sinntu eftirlitshlutverki sínu ekki sem skyldi. Virðast raunar hafa þagað gegn betri vitund. Bretar og Hollendingar hafa beitt gífurlegri hörku við að knýja fram fyllstu ábyrgð Íslendinga á Icesave-skuldbindingunum. Framan af nutu þeir til þess óskoraðs stuðnings annarra Evrópuríkja, sem stafaði af einkar vályndri stöðu evrópskra fjármálamarkaða sl. haust, en þær aðstæður hafa nú breyst.“

Þegar íslensku bankarnir hrundu í október var mikil óvissa um fjármálastöðugleika í Evrópu. Stórir bankar riðuðu til falls og annað var óhugsandi fyrir Evrópuþjóðir en að láta Íslendinga gangast við tryggingarskuldbindingum sínum, ella hefði almenn vantrú getað skapast á tryggingarleik evrópskra bankainnstæðna og bankaáhlaup siglt í kjölfarið. (Forseti hringir.) Þetta er stóra myndin sem Jón Daníelsson dregur hér upp.