137. löggjafarþing — 33. fundur,  2. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[21:31]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir þær ábendingar sem hv. þm. Birkir Jón Jónsson kemur fram með. Það er alveg ömurlegt að fylgjast með flótta samfylkingarmanna undan þessu máli og undan ábyrgð sinni í því. Við sjálfstæðismenn höfum sagt að við öxlum okkar ábyrgð. Það bera margir ábyrgð í þessu ferli og það er alls ekki við einhvern einn flokk að sakast, það er alls ekki við einhverja einstaka að sakast. Það eru margir hér sem hefðu viljað gera hlutina betur og við hefðum viljað sjá fara öðruvísi.

Grundvöllurinn er meingallað regluverk en vinnubrögð Samfylkingarinnar munu dæma sig sjálf. Ég held að þjóðin sjái orðið vel í gegnum hvaða vinnubrögð eru stunduð. Sinnuleysi þeirra og virðingarleysi hæstv. ráðherra Samfylkingarinnar, hv. þingmanna þeirra, kemur berlega í ljós við þessa umræðu þegar enginn þeirra er á svæðinu og þeir sem talað hafa í dag hafa verið í Evrópusambandshjali. Það læðist að mér mjög sterkur grunur um að Samfylkingin hafi það eitt að markmiði í þessu að ná einhvers konar samningum, að Samfylkingunni sé almennt alveg sama um hvernig þessi samningur er vegna þess að hún og þingmenn hennar hafi það eitt að markmiði í þessu að greiða fyrir aðild okkar og aðildarviðræðum okkar við Evrópusambandið. Það sé það eitt sem hangir á spýtunni hjá þeim. Það er ekki hægt að lesa neitt annað í þau skilaboð sem þeir hafa sent frá sér við þessa umræðu.