137. löggjafarþing — 33. fundur,  2. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[21:43]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Frú forseti. Ég var alveg kominn að því að kveðja mér hljóðs undir fundarstjórn forseta til þess að komast hér að og halda síðan ræðuna því að ég skil ekki hvað framsóknarmennirnir sakna Samfylkingarinnar mikið. En þangað leitar klárinn sem hann er kvaldastur. Ég verð að segja það alveg eins og er. Að öllu gamni slepptu þá tek ég heils hugar undir það að það er alveg með ólíkindum að þingmenn hennar skuli ekki vera viðstaddir hér og hæstv. ráðherrar þessa umræðu.

Frú forseti. Ég sagði í jómfrúrræðu minni þegar þingið var sett í vor að nú værum við í öldudal og við erum það svo sannarlega. Ég tel mjög mikilvægt að við allir alþingismenn Íslendinga og íslenska þjóðin í heild sinni standi saman. Það þarf svo sem ekki að rekja þessa sögu sem varð þess valdandi að við erum jafnilla stödd sem nú. Eins og hefur komið hér fram bæði hjá hæstv. fjármálaráðherra og hv. þm. Pétri Blöndal þá er skaðinn skeður. Hann er skeður vegna þess að misvitrir útrásarvíkingar fengu að leika lausum hala. Í þessum sporum stöndum við í dag og erum að reyna að þrífa upp eftir þá. Það eru staðreyndir málsins.

Við getum hins vegar deilt lengi um það og munum gera það eflaust hvernig við hefðum átt að gera hlutina öðruvísi. Eins og komið hefur fram þá er alltaf gott að vera vitur eftir á og ætla ég engum manni það að hafa ekki gripið til úrræða eða ykkur hér á hinu hv. Alþingi að haft grun um í hvert stefndi en grípa ekki inn í þá atburðarás.

Frú forseti. Allir stjórnmálaflokkar bera hér ábyrgð á þessu ástandi, mismikið reyndar, en allir gera það. Hins vegar hefur margoft komið fram hjá þingmönnum að ákveðinn stjórnmálaflokkur virðist vera hlaupinn hér á brott eða alla vega fer mjög lítið fyrir og vill nú ekki kannast við sinn hlut í þessu bankahruni. Því vil ég segja, frú forseti, að hæstv. viðskiptaráðherra gaf ekki hv. þm. Björgvini G. Sigurðssyni, fyrrverandi bankamálaráðherra, háa einkunn í ræðu sinni hér í dag og langar mig því að lesa upp úr grein sem hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson skrifaði aðeins tveimur mánuðum áður en bankarnir hrundu. Þá skrifar hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson um útrás og árangur bankanna. Ég vek athygli á því að þetta er einungis tveimur mánuðum áður en bankarnir hrundu til grunna, með leyfi forseta:

„Þegar KB banki opnaði útibú í Lúxemborg fyrir nokkrum árum óraði líklega engan fyrir því hve vel íslensku fjármálafyrirtækjunum ætti eftir að ganga við að hasla sér völl á erlendri grundu. Ævintýralega vel er kannski rétta orðið yfir það.

Kjarkur, þor og góð þekking íslensku útrásarmannanna skilaði meiri árangri hraðar við fjárfestingar erlendis en hægt var að sjá fyrir og víkingurinn hefur vakið athygli á alþjóðavísu. Ekki síst þegar lagt er saman við aðra útrás Íslendinga erlendis í verslun, iðnaði og þjónustu ýmiss konar.

Auðvitað skortir ekki úrtölur eða þá sem telja sig knúna til að tala útrás og fjárfestingarævintýri Íslendinga erlendis niður. Þannig eru nú hlutirnir einu sinni og því er það mikilvægt nú þegar hægir tímabundið á útrásinni vegna þrenginga á erlendum mörkuðum að halda frábærum árangri þessara flaggskipa atvinnulífsins okkar ríkulega til haga.“

Ég ætla að lesa þetta aftur, frú forseti:

„að halda frábærum árangri þessara flaggskipa atvinnulífsins okkar ríkulega til haga. Þetta eru okkar voldugustu fyrirtæki og nokkrar af helstu undirstöðum efnahagskerfis okkar til lengri tíma.

Athygli vekur þó að háværasta gagnrýnin kemur frá samkeppnisaðilum bankanna á erlendum vettvangi. Löngum hafa sérfræðingar Danske bank haft horni síðu íslensku bankanna en fyrir skemmstu bættust finnskir bankamenn í „grátkórinn“.

Aðstoðarmaður Nordea í Finnlandi, Markku Pohojla, gefur til dæmis opinberlega í skyn að íslensku bankarnir munu fljótlega lenda í miklum vandræðum. Hann gengur jafnvel svo langt að gera því skóna að íslensku bankarnir verði ekki til staðar eftir nokkra mánuði. Þessi stóru orð finnska bankamannsins byggja ekki á neinni greiningu á íslensku bönkunum.“

Áfram held ég, með leyfi forseta:

„Ásakanir þessar eru alvarlegar þar sem þær beinast einnig að íslenskum eftirlitsaðilum, sérstaklega Fjármálaeftirlitinu en einnig að hluta Seðlabankanum. Ítarleg greining þessara tveggja lykilstofnana gefa ekkert annað til kynna en að íslenska bankakerfið sé mjög stöndugt.

Í ofanálag eru innlán Finna í íslenskum bönkum tryggð með innstæðutryggingum. Að því leyti til sem finnskar reglur þar að lútandi veita betri réttindi en íslenskar mundu bankar bæta tjón sparifjáreigenda ef svo ólíklega vildi til að einhverjir bankar kæmust í lausafjárskort.

Því er rétt að halda því til haga sem rétt er þegar reynt er að kasta rýrð á fjármálastofnanir okkar þegar kreppir að.“

Frú forseti. Er það kannski vegna þessa sem hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson er ekki hér og hefur ekki tekið þátt í umræðunni því að hann býr yfir mikilli vitneskju um þetta sem fyrrverandi bankamálaráðherra þjóðarinnar?

Frú forseti. Mig langar til að fara aðeins yfir hvernig þetta mál bar að hér í þinginu, hvernig málið var kynnt fyrir þingmönnum. Það var gert með þeim hætti að það var boðaður fundur hér á föstudegi með hálftíma fyrirvara þar sem formaður samninganefndarinnar, Svavar Gestsson, mætti og fór yfir stöðu mála með þingflokkunum. Hann stoppaði í þingflokki Sjálfstæðisflokksins í um það bil 20 mínútur og það sjá allir að ekki gat átt sér stað nein umræða þar af neinu viti. Ég velti því fyrir mér hvort sú kynning hafi verið eins hjá öllum þingflokkunum líka hjá stjórnarflokkunum. Mér býður svo í grun að það hafi verið með þeim hætti. Því velti ég fyrir mér þegar hæstv. forsætisráðherra segir hér fullum fetum, margoft í fjölmiðlum, að hún sé að sjálfsögðu ekki með neitt plan B ef þessi samningur yrði hugsanlega ekki samþykktur hér á hinu háa Alþingi. Hún er ekki með neitt plan B. Hversu skynsamlegt er það yfir höfuð að vera ekki með það, því að það er líka skítastaða ef hann verður felldur? Þá velti ég því fyrir mér, þ.e. ef kynningin sem þingflokkur Samfylkingarinnar fékk er eitthvað í líkingu við þá sem þingflokkur Sjálfstæðisflokksins fékk, hvernig hæstv. ráðherra hafi getað skrifað undir þennan samning án þess að hafa fulla vitneskju fyrir því að hann fengi hér afgreiðslu í þinginu.

Frú forseti. Ég hef hins vegar orðið var við það hér á undanförnum dögum og það hefur komið fram í fréttum að einn helsti spunameistari Samfylkingarinnar er kominn í forsætisráðuneytið. Skyldi það vera tilviljun? Það held ég ekki því að nú á að kokka þetta ofan í þjóðina hvort sem henni líkar það betur eða verr.

Grundvallaratriði þessa máls, frú forseti, er að við skerum úr um það á lögfræðilegan og þjóðréttarlegan hátt hverjar skyldur þjóðarinnar séu vegna Icesave-skuldbindinganna. Það er mjög mikilvægt vegna þess að þjóðin stofnaði ekki til þessara skuldbindinga. Það voru útrásarvíkingarnir sem stofnuðu til þeirra. Þess vegna er gríðarlega mikilvægt að menn geri það og fullvissi sig um það hvernig og hver í raun skylda þjóðarinnar sé. Það hafa komið fram mörg sjónarmið um það, frú forseti, og margar efasemdir um það hjá hálærðum lögfróðum mönnum að við berum ekki þessar skuldbindingar, eigum ekki að bera þær og eigum að leita betur okkar lögfræðilegu og þjóðréttarlegu stöðu.

Það hefur líka komið fram í umræðunum í dag að frönsk stjórnvöld hafa ekki ábyrgst innstæður hjá sér, hjá frönskum innstæðueigendum og eins hefur það komið fram í fjölmiðlum að sænskum sérfræðingi finnst íslensk þjóð vera beitt miklu óréttlæti. Ég hef það á tilfinningunni, frú forseti, að við séum kúguð þjóð. Það er aumkunarvert að hlusta hér á hæstv. ráðherra færa rök fyrir því að þeir séu bundnir af minnisblaði. Ég velti því fyrir mér hvort það sé skynsamlegt fyrir okkur að láta semja um slíkar skuldbindingar sem þessar Icesave-skuldbindingar eru af aðilum sem gera ekki greinarmun á minnisblaði og samningi. Ég tel ekki skynsamlegt, frú forseti, að gera það með þeim hætti.

Síðan komum við kannski að kjarna málsins og hann er þessi: Getum við yfir höfuð borgað þær skuldbindingar sem Icesave-samningurinn felur í sér? Ég stórefast um það, frú forseti. Ég bara stórefast um það. Í dag berast fréttir af því að heildarskuldir þjóðarbúsins séu um 200–240% af landsframleiðslu. Ef mig misminnir ekki þá hefur komið fram hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum að 160% skuldir af landsframleiðslu séu ákveðin þolmörk þjóðarinnar.

Það er líka mikilvægt að það komi hér fram, frú forseti, að svokallaður InDefence-hópur hefur bent á að eftir þessi sjö ár sem við erum í frystingu, þurfum ekki að greiða af láninu, (Gripið fram í.) þá þurfum við að greiða 64 milljarða á ári á árunum 2016 og þaðan í frá, 64 milljarða á ári sem er 3,2% af vergri landsframleiðslu. Það er óraunhæft að mínu viti að við getum staðið undir því. Þeir ágætu menn sem þar starfa hafa líka bent á að viðskiptajöfnuður áranna 1945–2008 var að meðaltali neikvæður um mínus 2,2%, neikvæður um 2,2%, halli upp á 2,2%. Síðan eru menn hissa á því hér eins og hæstv. viðskiptaráðherra að menn hafi efasemdir um að þjóðarbúið geti staðið undir þessum skuldbindingum. Ég vísa því bara alfarið á bug og ekki bara það því svo virðist vera að margir hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar geri sér ekki grein fyrir því að þetta eru skuldir í erlendum gjaldeyri. Þetta eru ekki íslenskar krónur. Á því er reginmunur. Ég velti því fyrir mér hvort við getum nokkurn tíma unnið fyrir þessum gjaldeyri. Ég stórefast um það.

Síðan vil ég líka benda á það þegar menn meta stöðuna eins og hún er núna að þá hafði eignasafn Landsbankans þegar það var metið síðast fallið um 100 milljarða á milli mata. Hvað erum við í raun að gera? (SDG: Á nokkrum vikum.) Á nokkrum vikum. Ég held að besta lýsingin á þessu sé sú sem hv. þm. Pétur Blöndal hefur bent á, þ.e. að við erum að kasta upp teningi. Það er bara þannig.

Síðan langar mig að vekja athygli hér á einu, frú forseti. Á fundi með fulltrúum InDefence-hópsins sem ég sat um daginn kom fram að þeir hefðu fengið meiri tíma hjá enskum stjórnvöldum en íslenskum til þess að kynna sjónarmið sín. Er þetta eðlilegt? Er þetta boðlegt? Nei.

Frú forseti. Ég vil fyrir hönd íslensku þjóðarinnar þakka þeim einstaklingum sem standa að InDefence-hópnum fyrir þær varnir sem hann hefur haldið uppi fyrir þjóðina og það er ekki hægt að segja um alla.

Frú forseti. Ég velti fyrir mér hvert sé hlutverk Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hér á landi? Er hann hér til að hjálpa okkur út úr þessu efnahagshruni eða er hann hér til þess að kúga okkur? (Gripið fram í.) Er hann að því? Er hann að kúga okkur? Er hann hér í umboði Breta og Hollendinga til þess að ná af okkur auðlindunum? Er hann til þess? Ég bara velti því fyrir mér. Það getur ekki verið að það sé með þeim hætti og ég trúi því varla. En það bendir hins vegar allt til þess að það sé með þeim hætti.

Síðan vil ég beina þeirri spurningu til hæstv. fjármálaráðherra hvort íslensk stjórnvöld hafi einhvern tíma verið — eða hvort Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafi kvartað yfir því við íslensk stjórnvöld hvernig Bretar og Hollendingar hafi misnotað aðstöðu sína í sjóðnum. Mér hefur borist til eyrna að þeir hafi gert það og það er mikilvægt að það komi fram hvort þeir séu að beita þar óeðlilegum þrýstingi sem þeir eiga ekki að gera því að þeir eru jú hér til að hjálpa okkur til þess að endurreisa efnahagskerfið en ekki til þess að kúga okkur fyrir hönd Breta og Hollendinga.

Frú forseti. Það hefur komið fram hér í umræðunum í kvöld að líf ríkisstjórnarinnar velti á þessu máli. Ég lít ekki svo á. Ég verð að segja það, frú forseti, að ég tek undir með þeim þingmönnum sem finnst mjög óheppilegt ef svo yrði. Þó ég vilji losna við hana sem fyrst þá á þetta mál ekki að fella ríkisstjórnina.

Frú forseti. Við getum ekki látið gallaða löggjöf Evrópusambandsins kljúfa þjóðina í herðar niður með því að samþykkja þennan samning. Allra síst sættir þjóðin sig við að leggja á sig auknar byrðar (Forseti hringir.) á meðan ræningjarnir ganga lausir.

Frú forseti. Við eigum að treysta þjóðinni og bera samninginn undir hana því að (Forseti hringir.) annars verður hún aldrei sátt.