137. löggjafarþing — 33. fundur,  2. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[21:58]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Það var ýmislegt áhugavert í ræðu hv. þingmanns. Sérstaklega vil ég nefna athugasemdir varðandi Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Ég get ekki annað en tekið undir áhyggjur hv. þingmanns af því hvernig aðkoma Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á Íslandi virðist vera að þróast. Þar tek ég í rauninni líka undir með hæstv. heilbrigðisráðherra Ögmundi Jónassyni, sem hefur lýst töluverðum áhyggjum af aðkomu sjóðsins. Það er líka, ef menn skoða sögu þessarar stofnunar, full ástæða til þess að hafa áhyggjur. Að ýmsu leyti virðumst við vera að sigla inn í nákvæmlega sama ferli og svo mörg ríki hafa gert nánast undir stjórn sjóðsins og eitt af því sem einkennir það er óhófleg bjartsýni Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á möguleika ríkja til þess að standa undir skuldum, þ.e. aðkoma þessarar stofnunar hefur oftar en ekki leitt til þess að ríki hafa tekið á sig skuldir sem þau standa svo ekki undir og leiðir það til langvarandi hnignunar.

Ég hef áhuga á því að heyra hv. þingmann lýsa fyrir mér — af því að nú veit ég að þingmaðurinn þekkir vel til í rekstri bæði fyrirtækja og sveitarstjórna — hvernig hann hefði brugðist við hefði hann fengið til umsagnar í öðru starfi, í fyrirtæki eða í sveitarstjórn til dæmis, mál sem væri unnið með svipuðum hætti og það sem hér er verið að bera fyrir þingið, þar sem eru ekki til staðar neinir útreikningar sem eiga að sýna fram á hvernig eigi að standa undir þessari gríðarlegu skuldbindingu. Látum vera ef þetta væri einhver smávægileg lántaka. En þetta er lántaka sem getur í rauninni sett íslenska ríkið í þrot svoleiðis að það væri áhugavert að heyra hv. þingmann velta því fyrir sér hvernig menn í atvinnulífinu mundu bregðast við ef þeir fengju mál sem væri reifað með þessum hætti.