137. löggjafarþing — 33. fundur,  2. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[22:03]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir góða ræðu. Ég get tekið undir nánast allt í ræðu hans og sérstaklega áhyggjur hans varðandi upplýsingar um heildarskuldir þjóðarbúsins. Ég vitnaði í fyrstu ræðu minni í kvöld í frétt í Ríkisútvarpinu þar sem vitnað er í einn hagfræðing sem setið hefur á þingi fyrir annan stjórnarflokkinn. Þar kemur fram að þessi ágæti hagfræðingur telur að ef heildarskuldir þjóðarbúsins séu um 150–170% séum við komin að hættumörkum. Svo segir þessi ágæti hagfræðingur, með leyfi forseta:

„Þjóðir sem hafa svona hátt skuldahlutfall eru mjög líklegar til að lenda í greiðslufalli eða greiðsluþroti.“

Þar er verið að tala um 150–170%. Ef það er rétt eins og allt bendir til að þessar skuldir séu komnar yfir 200%, hvar erum við stödd þá? Þá fer maður að velta fyrir sér framhaldinu: Hvar er sú mikla hjálp sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn á að veita okkur? Hvar er sú mikla ráðgjöf sem hann veitir hér? Hefur það engin áhrif?

Ég hélt í upphafi þegar fréttir komu af því að þessi ágæti sjóður ætlaði að aðstoða okkur að hann væri til að hjálpa okkur og ég hafði fulla trú á því. Ég rökstuddi það við að til þess væri hann. En því miður virðist margt benda til þess að hann sé hér á einhverjum öðrum forsendum. Í þessum leyniplöggum eða plöggum sem ekki má birta opinberlega koma undarlega oft fram tengsl samningaviðræðnanna, erlendu samningaaðilanna við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Ég hvet þingmenn til að lúslesa (Forseti hringir.) möppuna með 20 málunum.