137. löggjafarþing — 33. fundur,  2. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[22:05]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er alveg rétt sem kemur fram hjá hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni, maður veltir fyrir sér og er mjög hugsi yfir Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Ég er líka mjög hugsi yfir því að í raun og veru eru einu vinir okkar í þessum darraðardansi Færeyingar. Þeir eru þeir einu sem komu sannarlega til hjálpar og ég er líka hugsi yfir því hvort það geti verið að stórríkin vilji eingöngu ásælast auðlindir okkar. Eins og allir vita gengur mjög hratt á auðlindir heimsins en við Íslendingar eigum sem betur fer mikið af auðlindum. Þær eru það sem mun hjálpa okkur í gegnum þetta.

Það er rétt sem kemur hér fram um áhyggjur manna af skuldastöðu ríkisins. Ég hef gríðarlega miklar áhyggjur af því að við séum að keyra ofan í mikið skuldafen og ekki bara það, við erum með allar þessar skuldir í erlendum gjaldeyri og við vitum hvað krónan er kvik. Ef hún fellur um lítilræði hækka skuldirnar mjög hratt. Það er því gríðarleg óvissa í sambandi við þetta og jafnframt gríðarleg óvissa um þær eignir sem eiga að ganga upp í þessar skuldbindingar. Mörgu er því ósvarað í sambandi við þetta mál, það er nánast eins og ágiskun. Síðan segja margir að menn geti reiknað með þessu eða hinu. Ég tel, frú forseti, eins og hv. þm. Pétur Blöndal hefur bent á, að við þyrftum að vera með einhvern líkindareikning: Hvað ef við fáum miklu minna en við reiknuðum með, (Forseti hringir.) hvaða afleiðingar mundi það hafa?