137. löggjafarþing — 33. fundur,  2. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[22:10]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég vil í upphafi ræðu minnar ítreka það sem ég sagði áður að mér finnst eðlilegt að þegar þessi umræða fer fram komi til salarins þeir hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar sem málin varða með ýmsum hætti. Hæstv. fjármálaráðherra hefur setið hér í dag og tekið þátt í umræðum af og til og er ástæða til að geta þess vegna þess að hann hefur verið sá eini frá ríkisstjórnarborðinu sem það hefur gert. Aðrir ráðherrar, hæstv. heilbrigðisráðherra, hæstv. félagsmálaráðherra og hæstv. utanríkisráðherra, komu örstutt í upphafi umræðunnar og komu með innlegg í umræðuna en hurfu síðan á braut vegna þess að þeir voru greinilega komnir til að tala en ekki til að hlusta. En störf okkar þingmanna felast ekki bara í að tala heldur líka í að hlusta og ef umræður í þinginu eiga að þjóna einhverjum tilgangi er auðvitað nauðsynlegt að við getum átt skoðanaskipti. Ég vil gjarnan eiga ákveðin orðaskipti við hæstv. fjármálaráðherra og fagna því auðvitað að hann er hér til svara. En ég sakna þess hins vegar að hvorki hæstv. forsætisráðherra né hæstv. utanríkisráðherra — en þessi mál tengjast vissulega þeirra verksviðum og ekki síst hlutverki þeirra sem forustumanna í ríkisstjórn — séu staddir við þessa umræðu þannig að hægt sé að eiga við þá orðaskipti og eftir atvikum að spyrja þá spurninga. Mér er illa við að spyrja spurninga út í loftið ef þeir sem spurningarnar eiga erindi til eru ekki til svara. Það er hálftilgangslaus iðja að varpa fram spurningum í einhverjum „retorískum“ tilgangi ef maður væntir ekki svara. Þess vegna var athugasemd mín áðan til þess ætluð að kalla eftir því að þessi umræða færðist fram á morgundaginn þannig að hæstv. ráðherrar og þeir hv. þingmenn sem vissulega eiga erindi í þessa umræðu fengju færi á að koma ef þeir geta ekki verið viðstaddir umræðuna hér í kvöld.

Þetta er ekki út í bláinn að nefna þessa hæstv. ráðherra. Hæstv. forsætisráðherra er auðvitað ráðherra efnahagsmála. Þetta er gríðarlega mikilvægt efnahagsmál, sennilega eitthvert stærsta ef ekki stærsta efnahagsmál sem við höfum tekið til umræðu í þinginu.

Hæstv. utanríkisráðherra ber ábyrgð á samningum Íslands við erlend ríki. Hvað erum við með í höndunum? Erum við ekki að fjalla um ríkisábyrgð vegna samninga við erlend ríki? Hæstv. utanríkisráðherra hefur líka gefið í skyn í umræðunum að hann hafi haft einhver afskipti af þessum málum á fyrri stigum sem ekki hafi verið opinberuð og ekki koma fram í gögnum. Það er mikilvægt að spyrja hæstv. utanríkisráðherra út í hver þau afskipti voru, hvort hann hafi gefið embættismönnum utanríkisráðuneytisins einhver fyrirmæli um að undirrita ekki minnisblöð eða eitthvað þess háttar, bara svo dæmi sé tekið. Hann hefur gefið það í skyn. Hann er ekki hér til að svara því en hann verður spurður um það síðar, það er alveg ljóst.

Það er frekar ómerkilegur leikur að koma fram og varpa einhverjum hálfkveðnum vísum í umræðuna af því tagi og vera síðan ekki til svara þegar menn hyggjast ganga eftir því. Eins og áður hefur komið fram í þessari umræðu er líka staðreynd að í einhverju stærsta máli sem varðar fjárhag og afkomu Íslendinga til næstu ára skuli annar stjórnarflokkurinn nánast ekkert sýna sig. Hæstv. ráðherrar komu vissulega í upphafi umræðunnar. Utanríkisráðherra tjáði sig í andsvari, hæstv. félagsmálaráðherra talaði og jafnframt hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir. En frá kl. 4 í dag, hygg ég, hefur varla þingmaður Samfylkingarinnar sést í salnum og hefur þó umræðan farið fram allan þann tíma að hálftíma undanskildum sem var gefinn fyrir kvöldmatarhlé. Ég undanskil auðvitað hv. þingmenn Samfylkingarinnar sem gegna störfum forseta vegna þess að þeir eru ekki til svara fyrir sinn flokk þegar þeir eru í því hlutverki heldur í hlutverki forseta. Allt er þetta sérstakt og einkennilegt.

Ég nefndi að það væru nokkur atriði sem kölluðu á sérstaka umfjöllun á þessu stigi málsins. Staða málsins sú að málið er til 1. umr. og á eftir að fá meðferð í nefndum þingsins og þar á eftir að kalla eftir nánari upplýsingum um ýmsa þætti. Ég vil nefna nokkur atriði sem er sérstaklega mikilvægt að kallað verði eftir með vönduðum hætti í nefndarstörfum:

Í fyrsta lagi er mikilvægt að það komi fram í þeim nefndum þingsins sem um þetta mál fjalla að þær kalli eftir upplýsingum og gögnum sem þegar virðast ekki hafa verið lögð fram. Ég tel víst að fjárlaganefnd muni fjalla um þetta og hugsanlega aðrar nefndir eins og efnahags- og skattanefnd og utanríkismálanefnd, það er eðlilegt að þær fái þetta líka til umfjöllunar a.m.k. að hluta til. Ég velti fyrir mér þeirri spurningu, og hæstv. fjármálaráðherra getur hugsanlega svarað því á eftir ef hann kýs að koma í andsvar, hvort öll skjalleg gögn sem varða þetta mál hafi verið lögð fram. Við höfum allmörg gögn sem við getum nálgast á netinu á slóðinni island.is. Vísað er í 68 skjöl þar, ef ég man rétt, ég þori ekki að fullyrða það. Í möppu sem geymd er í læstum skáp á nefndasviði Alþingis geta þingmenn nálgast 24 skjöl eða pappíra sem varða þetta mál. En ég velti fyrir mér og væri þakklátur hæstv. fjármálaráðherra ef hann gæti svarað mér, hvort allt sé nú fram komið, öll skjalleg gögn sem skipta máli í þessu sambandi og varða málið.

Ég veiti því t.d. athygli að það er eins og embættismenn og samningamenn Íslands hafi hætt að gera minnisblöð þegar ný samninganefnd tók við í febrúar. Ég ætla ekki að ljóstra upp um innihald minnisblaða samningamanna og embættismanna Íslendinga sem hægt er að nálgast í 24 skýrslna-möppunni en þar eru minnisblöð um samningaviðræður og um fundi sem þeir hafa átt við fulltrúa erlendra stjórnvalda. Það er eins og engin slík minnisblöð hafi verið gerð eftir að ný ríkisstjórn og ný samninganefnd tóku við í febrúar. Ég velti fyrir mér hvort það séu einhver ný vinnubrögð að festa ekki neitt slíkt á pappír eða hvort þau gögn eigi enn eftir að koma fram. Ég er ekki að ásaka einn eða neinn um neitt, ég vildi bara gjarnan að hæstv. fjármálaráðherra upplýsti og eyddi þeim hugsanlega vafa sem kann að leika á því hvort öll gögn hafi komið fram í málinu, þ.e. öll skjalleg gögn, allt sem til er á pappír um þetta, ef við orðum það þannig. Ef ekki er allt komið fram tel ég mjög mikilvægt að viðkomandi nefndir fái þá þau gögn í hendur þegar málið fer til nefndar.

Annað atriði sem er mjög mikilvægt að farið verði gaumgæfilega yfir í störfum nefndar eru hinar fjárhagslegu forsendur. Það er mikilvægt að lagst sé yfir þær forsendur sem koma fram í greinargerð með frumvarpinu og að fengið sé á það gagnrýnið mat hvernig það lítur út, að aflað sé sérfræðiálita á því hvort þær forsendur sem þar er gengið út frá standist. Eins held ég að það sé mjög mikilvægt, eins og hv. þm. Pétur Blöndal nefndi í þessari umræðu, að reynt sé að teikna upp bestu og verstu atburðarásina eða ferlið, hvernig hlutirnir líta út miðað við jákvæðar forsendur og hvernig þeir líta út miðað við neikvæðar forsendur. Að betur sé reynt að leggja mat en gert hefur verið á áhættuna sem fylgir samningnum á þeim forsendum sem hann er gerður.

Í þriðja lagi vil ég nefna að mér finnst afar mikilvægt að farið sé vandlega og gaumgæfilega yfir lagalegu forsendurnar og skuldbindingarnar sem gengið er út frá í þessu frumvarpi. Að farið sé með gagnrýnum hætti á vettvangi nefndar yfir hvort þar séu fullyrðingar um lagalega skyldu Íslands til að taka á sig þær byrðar sem þarna er talað um, hvort þær séu raunverulegar. Við vitum að uppi er ágreiningur meðal lögfræðinga og fræðimanna á sviði lögfræði um þessi atriði og það er auðvitað mjög mikilvægt að farið sé gaumgæfilega yfir það í nefndunum. Síðan er líka nauðsynlegt að við leggjum mat á það með öðrum hætti en bara að fullyrða eins og gert er í greinargerð með frumvarpinu, það sé farið yfir það með einhverjum vitrænum hætti hvaða stöðu við gætum átt von á ef Alþingi hafnar þessu samkomulagi eða ef Alþingi leggur fram tillögu að nýju samkomulagi eða eitthvað þess háttar. Það er svo mikið fullyrt í þessum málum. Fullyrt er um lagalegar skuldbindingar. Fullyrt er um að minnisblað frá því í október hafi gert það að verkum að við höfum ekki haft neina samningsstöðu. Fullyrt er að við einangrumst í samfélagi þjóðanna ef við samþykkjum ekki þennan samning nákvæmlega eins og hann er. Það er svo margt fullyrt í þessu og það er nauðsynlegt í nefndarstarfinu að farið sé ofan í þetta til að átta sig á því hvort allar þessar fullyrðingar standist. Ég held að það sé gríðarlega mikilvægt fyrir þessa umræðu að við veltum við hverjum steini af því að ekki er um að ræða neinn venjulegan samning. Það er ekki um að ræða einhverja venjulega lántöku af hálfu ríkisins. Þetta eru, eins og hv. þm. Atli Gíslason nefndi í þingræðum í desember sl., nauðungarsamningar sem er verið að neyða upp á okkur og þær aðstæður sem við erum í gera það að verkum að við þurfum að fara yfir þessi mál öll með allt öðrum, betri og gaumgæfilegri hætti en við gerum yfirleitt. Það á ekki síst rætur að rekja til þess um hve mikla fjárhagslega hagsmuni okkar er að ræða, og ekki bara okkar heldur líka komandi kynslóða, því að hættan er sú að verði skuldastaðan óviðráðanleg, m.a. sem afleiðing af þessum samningi, verði það fleiri en ein kynslóð og fleiri en tvær sem þurfa að glíma við þann vanda.