137. löggjafarþing — 33. fundur,  2. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[22:27]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að rengja það að þeir sem að þessu koma hafi unnið sitt starf eftir bestu vitund. Ég hef ekki forsendur til að halda einhverju öðru fram, alls ekki. Ég velti því bara fyrir mér hvort það sé fullnægjandi fyrir þingið og fyrir þær nefndir þingsins sem eiga eftir að fjalla um þessi mál að embættismenn í ráðuneytunum skammti ofan í þau gögn sem eiga að skipta máli. En það er nákvæmlega það sem mér heyrðist hæstv. fjármálaráðherra segja, að valin hefðu verið þau gögn sem þeir sem að málinu komu, sem eru væntanlega þeir embættismenn sem sátu í samninganefndinni eða komu að þessu með öðrum hætti, ákváðu að sýna þinginu og þjóðinni.

Ég velti fyrir mér hvort það sé ekki heppilegra, þó að ég viðurkenni og virði að það kann að vera þörf á trúnaði varðandi ákveðin gögn, að það sé þá látið í hendur þingmanna eða eftir atvikum viðkomandi þingnefndar að meta hvort slík gögn eigi að vera bundin trúnaði eða ekki. Það sé ekki frjálst mat þeirra embættismanna sem að málinu koma hvaða mál koma fyrir þingið.

Ég velti því fyrir mér, svo ég hugsi upphátt, hvort það sé almennt þannig að það samræmist eftirlitsskyldu þingsins að taka þegjandi og hljóðalaust við þeim upplýsingum sem embættismennirnir, sem á að hafa eftirlit með, ákveða að sýna þinginu. Ég geri mér auðvitað grein fyrir því að í ákveðnum (Forseti hringir.) þáttum milliríkjasamninga þarf að virða trúnað en það þarf þá að rökstyðja í hvert skipti fyrir sig og menn verða þá að þekkja þann rökstuðning sem því tengist.