137. löggjafarþing — 33. fundur,  2. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[22:29]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er ekki öðrum til að dreifa til að reiða fram upplýsingarnar en þeim sem hafa þær undir höndum, þ.e. þeim trúnaðarmönnum ríkisvaldsins sem unnið hafa viðkomandi vinnu og hafa bókað gögnin. Eitt get ég t.d. fullvissað hv. þingmann um að hvert einasta snifsi sem farið hefur um fjármálaráðuneytið í þessu máli síðan ég kom þangað hefur verið bókað inn í skjalakerfi ráðuneytisins.

Í öðru lagi held ég að hv. þingmaður geti verið óvenjurólegur í þessum efnum að þessu sinni vegna þess að frá sama tíma, og reyndar aftur í tímann eins og við höfðum gögn til, hefur allt verið sent til rannsóknarnefndar Alþingis. Þar er það í skoðun. Þar af leiðandi hefur líka þurft að gæta þess í samskiptunum að engir rannsóknarhagsmunir spilltust, að rannsóknarnefnd Alþingis hefði aðgang að öllum þessum gögnum og gæti haft hönd í bagga með því hvenær þau kæmu fyrir almenningssjónir. Flokkunin á efninu, sú meðferð gagna sem hér hefur verið valin, er þar af leiðandi byggð á samstarfi við rannsóknarnefndina og samþykkt af henni. Ég leyfi mér því að treysta því og vona að hv. þingmaður geti treyst því að hér hafi verið reynt að vanda vinnubrögðin mjög vel. Eitt er alveg ljóst, það eru fá ef ekki nokkur dæmi til í sögunni um að jafnmikil gögn af þessu tagi hafi verið gerð opinber í þingmeðferð máls. Stærstur hluti þessara gagna væri samkvæmt venjum geymdur í skjalagögnum viðkomandi ráðuneyta og kæmi ekki fyrir almenningssjónir fyrr en eftir 50 ár þegar þau eru aðgengileg á Þjóðskjalasafni Íslands. Hér er því brotið í blað í þeim efnum að opna þetta með algerlega sögulegum hætti og það tel ég alveg sjálfsagt og eðlilegt vegna stærðar málsins og þess hvernig það er allt saman vaxið.