137. löggjafarþing — 34. fundur,  3. júlí 2009.

gjaldeyrismál.

137. mál
[11:35]
Horfa

viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um gjaldeyrismál, nr. 87/1992, með síðari breytingum, 137. mál á þskj. 216.

Í frumvarpinu eru lagðar til tvíþættar breytingar á lögum um gjaldeyrismál. Í fyrsta lagi er lögð til breyting á 15. gr. a og 16. gr. laganna er varða viðurlög við brotum gegn 8. gr. laganna en í greininni er fjallað um hvaða aðilar hafi heimild til að hafa milligöngu um gjaldeyrisviðskipti og versla með gjaldeyri. Ástæðan fyrir breytingu á 15. gr. a og 16. gr. er að við breytingu á viðurlagaákvæðum laganna í nóvember 2008 fórst fyrir að kveða á um að brot gegn 8. gr. laganna væru refsiverð. Í greininni segir að öðrum en þeim sem hafi heimild í lögum eða samkvæmt ákvæðum í alþjóðlegum samningum sem Ísland er aðili að eða með leyfi frá Seðlabankanum sé óheimilt að hafa milligöngu um gjaldeyrisviðskipti hér á landi. Mjög mikilvægt er að heimilt sé að refsa fyrir brot gegn þessu ákvæði þar sem þeir aðilar sem brjóta gegn ákvæðinu gera öðrum mögulegt að brjóta gegn lögum og reglum um gjaldeyrismál og hvetja jafnvel til slíkra brota. Er því lagt til að fjármálaeftirlitinu verði veitt heimild til að leggja á stjórnvaldssektir á þá sem brjóta gegn ákvæðinu. Jafnframt er lagt til að sektir eða fangelsi allt að tveimur árum geti legið við broti gegn 8. gr. ef brotið er alvarlegt. Það er Fjármálaeftirlitið sem hefur heimild til að leggja á stjórnvaldssektir vegna brota á lögum um gjaldeyrismál en ef brot eru meiri háttar vísar Fjármálaeftirlitið þeim til lögreglu.

Í öðru lagi er í frumvarpinu lagt til að rannsóknarheimildir Fjármálaeftirlitsins verði styrktar og tekinn af allur vafi um að þau úrræði sem fram koma í lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi gildi einnig við rannsókn brota á lögum og reglum um gjaldeyrismál. Þannig er lagt til að nýrri grein, 15. gr. e, verði bætt við lögin. Þar eru dregnar fram tilteknar heimildir Fjármálaeftirlitsins. Til dæmis er kveðið á um að stofnunin hafi heimild til að krefja einstaklinga og lögaðila um upplýsingar og gögn, geti kallað aðila til skýrslugjafar, krafist þess að starfsemi sem stunduð er án tilskilinna leyfa verði hætt auk þess sem lagt er til að Fjármálaeftirlitinu verði heimilt að krefjast kyrrsetningar eigna þegar fyrir liggur rökstuddur grunur um að háttsemi fari í bága við lögin.

Ég legg til, virðulegi forseti, að máli þessu verði að umræðunni lokinni vísað til 2. umr. og hv. viðskiptanefndar.