137. löggjafarþing — 34. fundur,  3. júlí 2009.

gjaldeyrismál.

137. mál
[11:37]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Ég fagna þessu frumvarpi. Það er tímabært að veita Fjármálaeftirlitinu auknar heimildir til þess að hafa eftirlit með og beita viðurlögum vegna brota á lögum um gjaldeyrismál. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem við erum að auka við heimildir eftirlitsstofnana í kjölfar bankahrunsins.

Erindi mitt í ræðustól er kannski nokkuð þröngt. Mitt litla hjarta gladdist yfir því að sjá í þessu lagafrumvarpi eitt orð: Kyrrsetning eigna. Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra, því ég gerði leit í gagnagrunni í gegnum lagasafnið að kyrrsetningu, hvar það er að finna og það er hvergi að finna í lögum um Fjármálaeftirlitið eða fjármálastofnanir, ekki hjá hinum sérstaka saksóknara, heldur gilda um þetta sérstök lög.

Hér er gerð tillaga um að setja inn ákvæði þar sem Fjármálaeftirlitið getur krafist kyrrsetningar eigna einstaklings eða lögaðila þegar fyrir liggur rökstuddur grunur um háttsemi hans fari í bága við ákvæði laga um gjaldeyrismál og ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort hann hafi velt því fyrir sér hvort Fjármálaeftirlitið ætti kannski að fá víðtækari heimildir til að beita kyrrsetningu, ekki aðeins óska eftir henni heldur beita kyrrsetningu og þar er ég að vísa í frumvarp til laga sem var reyndar við breytingu á neyðarlögunum sem ég og fleiri þingmenn Vinstri grænna fluttum á síðasta þingi þar sem var reiknað með því að Fjármálaeftirlitið gæti krafist þess að eignir fyrrverandi stjórnenda, eigenda og tengdra aðila þeirra fjármálastofnana sem íslenska ríkið hefur yfirtekið á grundvelli neyðarlaganna skuli kyrrsettar þar til opinber rannsókn leiði í ljós hvort viðkomandi njóti réttarstöðu sakbornings vegna gruns um refsiverða háttsemi í aðdraganda eða í tengslum við setningu laganna.

Ég tel það auðvitað miður að þetta frumvarp komst aldrei á dagskrá og það fékkst aldrei rætt og ég tel að betur hefði farið ef það hefði verið gert að lögum á sínum tíma. Það er eflaust of seint að tala um það en ég velti því fyrir mér og vil endurtaka spurningu mína til hæstv. ráðherra: Hefur ráðherrann velt því fyrir sér hvort ekki sé eðlilegt að Fjármálaeftirlitið hafi heimildir sem þessar?