137. löggjafarþing — 34. fundur,  3. júlí 2009.

gjaldeyrismál.

137. mál
[11:40]
Horfa

viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég kynnti mér ekki í þaula það lagafrumvarp sem hv. þm. Álfheiður vísaði til og treysti mér því ekki til að taka afstöðu til þess hér og nú en almennt vil ég þó segja um heimildir stjórnvalda og þar á meðal FME til kyrrsetningar eigna, að það hlýtur að koma alvarlega til skoðunar að auka við þær heimildir í ljósi reynslunnar undanfarna mánuði. Það hefur ekki farið fram hjá mér frekar en öðrum að háværar kröfur eru um það úti í þjóðfélaginu að þessu úrræði sé beitt í ríkari mæli. Nú eru auðvitað ákveðnar heimildir til í lögum um kyrrsetningu eigna en það hlýtur að koma til alvarlegrar skoðunar hvort það eigi annaðhvort að beita þeim í ríkari mæli en hingað til eða jafnvel auka við þær heimildir. En ráðuneytið hefur ekki verið með neina vinnu í þá veru að undirbúa slíka lagasetningu.