137. löggjafarþing — 34. fundur,  3. júlí 2009.

gjaldeyrismál.

137. mál
[11:43]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Við erum enn á ný að ræða lagafrumvarp sem lýtur að viðskiptum með gjaldeyri og það endurspeglar auðvitað erfiða og sorglega stöðu sem uppi er í þjóðarbúskap okkar Íslendinga. Það má ljóst vera að það er fullkomin neyðarstaða að þurfa að búa við þau gjaldeyrishöft sem nú eru við lýði. Það er keppikefli og markmið að komast út úr því kerfi, út úr þeim höftum sem allra fyrst. Það er mjög mikilvægt að það sjónarmið sé ráðandi vegna þess að hvert skref sem við stígum í átt til aukinna hafta er auðvelt en hvert skref sem við stígum frá höftum er erfitt og tekur í og eftir því sem skrefin verða fleiri í átt til hafta því erfiðari verður ferðin til baka. Það tjón sem verður í samfélaginu vegna þess að við búum við gjaldeyrishöft mun vaxa og vaxa, verða meira og meira. Það sýnir sagan okkur og það sýnir og segir okkur heilbrigð skynsemi. En á þessari vegferð erum við og við höfum tekið þessa ákvörðun og Alþingi hefur heimilað að í þessi höft væri farið og það skiptir þá miklu máli að framkvæmd slíkra laga gangi eftir og að á þeim verði tekið sem reyna að smeygja sér undan lögunum. Því um þessi lög eins og öll önnur gildir að það er öllum uppálagt að fara eftir þeim. Mönnum geta fundist öll gjaldeyrishöft bæði ósanngjörn og jafnvel heimskuleg. Það má rökstyðja slíka skoðun en það breytir ekki því að eftir þeim lögum sem Alþingi setur á að fara. Ég skil það svo að tilgangurinn með þessum lögum sé að tryggja að farið sé eftir lögum sem Alþingi setur og það séu til úrræði hjá til þess bærum aðilum að bregðast við því ef ekki er gert.

En ég ítreka og árétta mikilvægi þess að það líði sem skemmstur tími fram að því að við getum byrjað að taka marktæk skref frá höftunum á gjaldeyrisviðskiptum og í átt að eðlilegu umhverfi þessara mála. Hvenær það tekst eða hvaða aðgerðir þarf að ráðast í eða hvaða aðstæður það eru sem munu gera að verkum að við treystum okkur til að fara þá leiðina er ekki umræðuefnið í dag eða um þetta frumvarp. En ég verð að segja að áhyggjur mínar fara vaxandi þegar kemur að þeirri spurningu hvenær okkur takist að vinna okkur út úr þessum höftum. Ég hef vaxandi áhyggjur af því. Ég vona að í nefndinni muni verða farið ítarlega og vel yfir þetta en það er verið að fjalla þarna um viðkvæma hluti vegna þess að hinum megin verður þetta að vera þannig að markaðurinn virki þó eins vel og hann getur virkað við þessar aðstæður. Það er líka mikilvægt að allir þeir aðilar séu kallaðir til sem geti veitt nefndinni góð ráð til að tryggja að eftir lögunum verði farið og þau virki sem best.